Stefnur Stjórnarráðs Íslands

Jafnréttisáætlun

Leiðarljós

Að Stjórnarráðið sé eftirsóknarverður vinnustaður þar sem jafnrétti og jafnræði kynjanna er virt í hvívetna og konur og karlar hafa jöfn tækifæri til að njóta eigin atorku og þroska hæfileika sína óháð kyni.

Jafnréttisáætlun Stjórnarráðsins

Jafnréttisáætlun þessi tekur til Stjórnarráðsins sem sameiginlegs vinnustaðar starfsfólks í ráðuneytum, sbr. 18. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla (jafnréttislaga), og kveður á um markmið og aðgerðir til að tryggja starfsfólki Stjórnarráðsins þau réttindi sem kveðið er á um í jafnréttislögum.

Þá eru í áætluninni markmið og aðgerðir sem lúta að ákvæðum jafnréttislaga sem varða innra starf ráðuneytanna. Um önnur verkefni þeirra á sviði jafnréttismála er kveðið á um í framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára sem samþykkt er á Alþingi sem þingsályktun, sbr. 11. gr. jafnréttislaga.

Hvert ráðuneyti ber ábyrgð á að framfylgja jafnréttisáætlun Stjórnarráðsins innan sinna vébanda en er jafnframt heimilt að forgangsraða verkefnum og ákvarða fleiri í sérstakri framkvæmdaáætlun eftir aðstæðum í hverju ráðuneyti.

Markmið jafnréttisáætlunar Stjórnarráðsins gagnvart starfsfólki

Tilgangur jafnréttisáætlunar Stjórnarráðsins er að tryggja jafnrétti kynjanna, jafna stöðu og virðingu kvenna og karla innan ráðuneytanna og að stjórnendur og starfsfólk ráðuneytanna sé meðvitað um mikilvægi þess að allir fái notið sín óháð kyni. Mikil verðmæti felast í virku jafnréttisstarfi innan Stjórnarráðsins. Sem dæmi má nefna að hæfni starfsfólks og sérþekking mun nýtast betur þar sem Stjórnarráðið mun hafa úr breiðari hópi sérfræðinga að velja við útdeilingu verkefna. Þá sýna rannsóknir að vinnuandinn er betri og framlegðin meiri á vinnustöðum þar sem jafnrétti ríkir og starfsliðið samanstendur af bæði konum og körlum. Einnig er viðbúið að virkt jafnréttisstarf styrki ímynd Stjórnarráðsins og einstakra ráðuneyta sem vinnustaðar, bæði inn á við og út á við.

Launajafnrétti

Við ákvörðun launa skal þess gætt að kynjum sé ekki mismunað. Konum og körlum skulu greidd jöfn laun og skulu þau njóta sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf. Með jöfnum launum er átt við að laun séu ákveðin á sama hátt fyrir konur og karla. Þau viðmið sem lögð eru launaákvörðunum til grundvallar skulu ekki fela í sér kynjamismunun. Laun eru í 8. tölul. 2. gr. jafnréttislaga skilgreind sem almennt endurgjald fyrir störf og hvers konar frekari þóknun, bein og óbein, hvort heldur er með hlunnindagreiðslum eða með öðrum hætti sem atvinnurekandi greiðir starfsmanni sínum fyrir vinnu hans.

Kjör eru í 9. tölul. 2. gr. jafnréttislaga skilgreind sem laun ásamt lífeyris-, orlofs- og veikindaréttindum og hvers konar öðrum starfskjörum eða réttindum sem metin verða til fjár. Samkvæmt 19. gr. jafnréttislaga er starfsfólki Stjórnarráðsins ávallt heimilt að skýra frá launakjörum sínum ef það kýs og er yfirmanni eða öðrum sem koma að ákvörðun launa óheimilt að óska trúnaðar starfsmanns um launakjör sín.

Markmið Aðgerð Ábyrgð Tímarammi
 Uppræta  kynbundinn launmun, bæði innan ráðuneyta og á milli ráðuneyta #1: Gera skal úttekt á hvort til staðar sé kynbundinn launamunur í viðkomandi ráðuneyti og ef svo er, ákveða hvernig yfirstjórn hyggst jafna hlut kynjanna. Niðurstöður skulu kynntar öllu starfsfólki þess ráðuneytis sem um ræðir. Mælst er til þess að óháður aðili framkvæmi athugun á launamun en ekki einstök ráðuneyti. Yfirstjórn hvers ráðuneytis í samstarfi við jafnréttisfulltrúa. Í nóvember ár hvert (m.v. laun í október)
#2: Kanna hvort kynbundinn launamunur sé á starfskjörum starfsmanna innan og milli ráðuneyta, einkum með tilliti til fastrar yfirvinnu og aukagreiðslna. Fjármálaráðuneytið kynni niðurstöður fyrir jafnréttisfulltrúum og hafi samráð um aðgerðir sem gripið verður til. Fjármálaráðuneytið í samráði við rekstrarstjóra, mannauðsstjóra og jafnréttisfulltrúa. Í janúar ár hvert

Laus störf og framgangur í starfi, starfsþjálfun, endurmenntun og símenntun.

Starf sem laust er til umsóknar skal standa opið jafnt konum og körlum. Stefnt er að því að halda sem jöfnustu hlutfalli kynjanna í ýmsum störfum innan ráðuneytanna. Jafnréttissjónarmið verði metin til jafns við önnur mikilvæg sjónarmið sem ráða við stöðuveitingar. Sérstök áhersla er lögð á að jafna stöðu kynjanna í stjórnunar- og áhrifastöðum.

Tryggt verði að konur og karlar njóti sömu möguleika til starfsþjálfunar, endurmenntunar og símenntunar og til að sækja námskeið er haldin eru til að auka hæfni í starfi eða til undirbúnings öðrum störfum, m.a. í samræmi við mannauðsstefnu Stjórnarráðsins. Þess verði gætt við úthlutun verkefna og tækifæra til að axla ábyrgð, sem og þegar um framgang eða tilfærslu í störfum er að ræða, að einstaklingum sé ekki mismunað vegna kynferðis. Sama gildir um starfs- eða vinnuhópa sem starfsfólk er skipað í.

Markmið Aðgerð Ábyrgð Tímarammi
Jafn aðgangur að störfum #3: Í auglýsingum eru störf ókyngreind og þess gætt að hafa bæði kynin í huga við gerð þeirra. Hvetja skal bæði kynin til að sækja um auglýst störf. Ábyrgðaraðili ráðninga Alltaf
Jöfn tækifæri til framgangs í starfi #4: Við árlega greinargerð jafnréttisfulltrúa til Jafnréttisstofu verði teknar saman upplýsingar um hlut kynja í stjórnunar- og áhrifastöðum í ráðuneytum. Jafnréttisfulltrúi Árlega
Kynjablandaður vinnustaður #5: Ef á annað kynið hallar ber að gæta sérstaklega að jafnréttissjónarmiðum þegar nýráðningar eða tilfærslur í störfum innan eða milli ráðuneyta eiga sér stað og nýta þá tækifæri til að rétta hlut þess kyns sem á hefur hallað. Ráðuneytisstjórar og skrifstofustjórar Alltaf
 Jafn aðgangur að endurmenntun, símenntun og framgangi í starfi #6: Halda skal kynjagreint bókhald yfir þátttöku starfsfólks í námskeiðum, í annarri skipulagðri endurmenntun og í starfs- og vinnuhópum svo unnt sé að greina hvort á annað kynið hallar við nýtingu slíkra tækifæra. Komi slíkt í ljós ber að gera grein fyrir því í jafnréttisáætlun ráðuneytis hvernig slíkur halli verði leiðréttur. Rekstrarstjóri/
mannauðsstjóri
Árlega
  #7: Greina skal hvernig framgangi kynja í starfi innan ráðuneytisins er háttað. Komi í ljós að á annað kynið hallar ber að gera grein fyrir því í jafnréttisáætlun ráðuneytisins hvernig slíkur halli verði leiðréttur. Yfirstjórn ráðuneytis Árlega

Samræming fjölskyldu- og atvinnulífs

Starfsfólki skal gert kleift að samræma starfsskyldur sínar og skyldur gagnvart fjölskyldu með sveigjanlegum vinnutíma, hlutastörfum eða annarri vinnuhagræðingu, eftir því sem við verður komið og þörf er á. Gera skal ráð fyrir að karlar jafnt sem konur njóti sveigjanleika til að sinna fjölskyldum sínum. Óheimilt er að láta fæðingar- og foreldraorlof, eða aðrar aðstæður tengdar meðgöngu og barnsburði, hafa neikvæð áhrif á ákvarðanir um framgang í starfi, endurmenntun, uppsögn, vinnuaðstæður og fleiri slíka þætti sem fram koma í 1. mgr. 26. gr. jafnréttislaga. Þá ber að leitast við að halda yfirvinnu starfsfólks innan eðlilegra marka.

Markmið Aðgerð Ábyrgð Tímarammi
Samræming fjölskyldu- og atvinnulífs #8: Starfsfólki skulu kynnt úrræði á borð við sveigjanlegan vinnutíma, möguleika á hlutastörfum og þess háttar. Rekstrarstjórar og mannauðsfulltrúar í samstarfi við jafnréttisfulltrúa Með reglulegu millibili
#9: Jafnréttisfræðsla jafnréttisfulltrúa innan ráðuneyta skal fela í sér hvatningu til að nýta sér rétt sinn til fæðingarorlofs og veikindadaga barna. Jafnréttisfulltrúar ráðuneyta Með reglulegu millibili
Halda yfirvinnu starfsfólks innan hóflegra marka og uppræta kynbundinn mun þar á #10:. Fara skal yfir fjölda yfirvinnustunda og gera kyngreint yfirlit yfir þær. Leitast skal við að tryggja að yfirvinna starfsfólks sé innan eðlilegra marka og hafi þannig ekki áhrif á fjölskyldulíf. Bregðast skal við með endurskipulagningu verkefna eða annarri vinnuhagræðingu ef þörf er á. Yfirstjórn ráðuneytis Einu sinni á ári

Kynbundin og kynferðisleg áreitni

Allt starfsfólk á rétt á því að komið sé fram við það af virðingu og að það sæti ekki kynbundinni eða kynferðislegri áreitni. Í jafnréttislögum eru eftirfarandi skilgreiningar:

  • Kynbundin áreitni: Hvers kyns ósanngjörn og/eða móðgandi hegðun, sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður, er í óþökk og hefur áhrif á sjálfsvirðingu þess sem fyrir henni verður og er haldið áfram þrátt fyrir að gefið sé skýrt í skyn að hegðunin sé óvelkomin. Áreitnin getur verið líkamleg, orðbundin eða táknræn. Eitt tilvik getur talist kynbundin áreitni ef það er alvarlegt.
  • Kynferðisleg áreitni: Hvers kyns ósanngjörn og/eða móðgandi kynferðisleg hegðun sem er í óþökk og hefur áhrif á sjálfsvirðingu þess sem fyrir henni verður og er haldið áfram þrátt fyrir að gefið sé skýrt í skyn að hegðunin sé óvelkomin. Áreitnin getur verið líkamleg, orðbundin eða táknræn. Eitt tilvik getur talist kynferðisleg áreitni ef það er alvarlegt.

Unnið skal markvisst að því að skapa menningu jafnréttis innan Stjórnarráðsins. Í því felst að skapa umhverfi þar sem hægt er að ræða opinskátt um menningu og staðalmyndir og hvernig hægt er að stuðla að fordómalausu samfélagi.

Markmið Aðgerð Ábyrgð Tímarammi
Vinna gegn kynbundinni og kynferðislegri áreitni #11: Útbúnar verði verklagsreglur um meðferð mála sem varða kynbundna og kynferðislega áreitni þar sem skýrt er kveðið á um úrræði. Verklagsreglurnar verði birtar í starfsmannahandbók Stjórnarráðsins. Skrifstofustjóri lífskjara og vinnumála, velferðarráðuneytinu Maí 2013
#12: Fræðsla um kynbundna og kynferðislega áreitni og meðferð slíkra mála verði þáttur í fræðslu sem jafnréttisfulltrúar ráðuneyta skipuleggi árlega. Jafnréttisfulltrúar ráðuneyta Árlega
#13: Haldin skulu námskeið fyrir þau sem til þess eru bær að taka á móti kvörtunum starfsfólks vegna kynbundinnar eða kynferðislegrar áreitni.  Skrifstofustjóri starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytisins í samstarfi við jafnréttisfulltrúa ráðuneyta Árlega
#14: Útbúin verða leiðarljós sem ráðuneyti og starfsfólk skuldbinda sig til að hafa í heiðri með undirritun til að skapa vinnuumhverfi sem er laust við áreitni. Skrifstofustjóri starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytisins September 2013
Breyta hefðbundnum kynjaímyndum og vinna gegn neikvæðum staðalímyndum um hlutverk kvenna og karla #15: Farið verði í átaksverkefni til að vinna gegn neikvæðum staðalmyndum um eðli og hlutverk kynjanna. Jafnréttisfulltrúar ráðuneytanna Samþætt árlegri jafnréttisfræðslu jafnréttisfulltrúa

Markmið jafnréttisáætlunar Stjórnarráðsins varðandi innra starf

Í öllu starfi Stjórnarráðsins verði unnið gegn viðhorfum sem leiða til aðstöðumunar kvenna og karla í þjóðfélaginu. Jafnréttismál og leiðir til að stuðla að jafnri stöðu kynjanna verði virkur þáttur í daglegu starfi Stjórnarráðsins og samþætt stefnumótun og ákvörðunum innan þess.

Þátttaka í nefndum, ráðum og stjórnum

Unnið skal markvisst að því að jafna hlut kynja í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum hins opinbera. Við skipan í nefndir, ráð og stjórnir, þ.m.t. stjórnir opinberra hlutafélaga og fyrirtækja sem ríkið er aðaleigandi að, skal þess gætt að kynjahlutfall sé sem jafnast og að hlutfall hvors kyns sé ekki undir 40% þegar um fleiri en þrjá fulltrúa er að ræða.

 

Markmið Aðgerð Ábyrgð Tímarammi
Vinna að jöfnum áhrifum kynjanna í samfélaginu #16: Þegar leitað er tilnefninga í opinberar nefndir og ráð skal minnt á ákvæði 15. gr. jafnréttislaga um þátttöku í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum hins opinbera. Skal sérstaklega óskað eftir tilnefningu karls og konu í hvert sæti sem skipa á í. Ráðherrar og ráðuneytisstjórar Alltaf
#17: Fela skal sérstökum aðila innan hvers ráðuneytis að taka við tilnefningum í allar nefndir og ráð á vegum ráðuneytisins. Ráðuneytisstjórar Maí 2013
#18: Sjá skal til þess að þau sem tilnefna fylgi ákvæði 15. gr. jafnréttislaga um þátttöku í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum hins opinbera. Aðili sem falið er að taka við tilnefningum í nefndir og ráð Alltaf

Greining tölfræðiupplýsinga

Við alla upplýsingaöflun, úrvinnslu og miðlun skal hvert ráðuneyti greina tölfræðilegar upplýsingar eftir kynjum, eftir því sem þýðingu hefur og ekki stangast á við persónuverndarhagsmuni, sbr. 16. gr. jafnréttislaga.

Markmið Aðgerð Ábyrgð Tímarammi
Að tölfræðiupplýsingar séu greindar eftir kyni #19: Liður í jafnréttisstarfi  ráðuneyta verði að gera úttekt á reglulegri upplýsingaöflun og upplýsingamiðlun á vegum ráðuneyta og kannað hvort úrbóta er þörf. Ráðuneytisstjórar og skrifstofustjórar Árlega

Kynjasamþætting

Kynjasamþættingar skal gætt við alla stefnumótun og áætlanagerð á vegum ráðuneyta og opinberra stofnana sem starfa á málefnasviði þeirra. Hið sama gildir um alla ákvörðunartöku innan ráðuneyta og stofnana eftir því sem við getur átt, sbr. 17. gr. jafnréttislaga.

Markmið Aðgerð Ábyrgð Tímarammi
Efla fræðslu um jafnréttismál #20: Fræðsla um samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða fyrir þá sem koma að stefnumótun og ákvörðunum í ráðuneytum skal vera liður í jafnréttisstarfi ráðuneyta. Jafnréttisfulltrúar ráðuneyta Árlega
Samþætting kynja- og jafnréttissjónarmiða í stefnumótun og ákvarðanatöku #21: Hvert ráðuneyti geri áætlun um hvernig samþætta beri kynja- og jafnréttissjónarmið stefnumótun og áætlanagerð á málefnasviði ráðuneytisins. Ráðuneytisstjórar og skrifstofustjórar í samstarfi við jafnréttisfulltrúa Október 2013
#22: Ráðuneyti vinni tvö kynjasamþættingarverkefni á ári eins og kveðið er á um í framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum. Ráðuneytisstjórar Alltaf

Jafnréttismat á frumvörpum

Það er liður í samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða við stefnumótun og ákvörðunartöku að mat sé lagt á frumvörp sem áhrif geta haft á jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Stjórnarfrumvörp sem ætlað er að geti haft slík áhrif verði metin með tilliti til jafnréttissjónarmiða, sbr. reglur um starfshætti ríkisstjórnar sem samþykktar voru 9. janúar 2013.

Markmið Aðgerð Ábyrgð Tímarammi
Samþætting kynja- og jafnréttissjónarmiða #23: Jafnréttisfulltrúi í samvinnu við ráðuneytisstjóra geri tillögu um hvaða frumvörp skuli metin með tilliti til jafnréttissjónarmiða og sjái um að slíkt sé gert, eftir atvikum með sérfræðiaðstoð eða beitingu gátlista útgefnum af forsætisráðuneyti. Slíku mati sé haldið til haga og sent Jafnréttisstofu með árlegri greinargerð jafnréttisfulltrúa, sbr. 9. gr. í starfsreglum jafnréttisfulltrúa ráðuneyta. Ráðuneytisstjórar og jafnréttisfulltrúar Árlega

Framkvæmdaáætlun ráðuneyta

Hverju ráðuneyti er  heimilt að setja sér sérstaka framkvæmdaáætlun á grundvelli jafnréttisáætlunar Stjórnarráðsins, sbr. 3. mgr. 1. liðar þessarar áætlunar. Ráðuneytisstjóri ber ábyrgð á að jafnréttisáætlun Stjórnarráðsins og eftir atvikum framkvæmdaátlun ráðuneytis sé framfylt innan þess. Sér til fulltingis við eftirfylgni og mat á framvindu hefur hann jafnréttisfulltrúa og jafnréttisnefnd, sem skulu veita ráðgjöf og vera starfsfólki til aðstoðar.

Jafnréttisfulltrúi og jafnréttisnefnd

Í hverju ráðuneyti skal starfa jafnréttisfulltrúi með sérþekkingu á jafnréttismálum. Jafnréttisfulltrúi fylgir eftir jafnréttisáætlun Stjórnarráðsins og eftir atvikum framkvæmdaáætlun ráðuneytis, hefur eftirlit með jafnréttisstarfi á málefnasviði viðkomandi ráðuneytis og stofnana þess, vinnur að kynjasamþættingu á málefnasviði ráðuneytisins og sinnir erindum starfsfólks á grundvelli jafnréttisáætlunar. Nánar er kveðið á um hlutverk jafnréttisfulltrúa í starfsreglum. Í hverju ráðuneyti skal jafnframt skipa jafnréttisnefnd sem hefur það hlutverk að fylgjast með framkvæmd og stöðu jafnréttismála í ráðuneytinu og undirstofnunum þess, móta stefnu og áætlanir ráðuneytisins í jafnréttismálum og vera ráðgefandi fyrir jafnréttisfulltrúa sem og yfirstjórn ráðuneytisins í málefnum er varða jafnrétti.

Önnur ákvæði

Greinargerð til Jafnréttisstofu

Árlega skal Jafnréttisstofu og starfsfólki ráðuneytis gerð grein fyrir framvindu jafnréttisáætlunar Stjórnarráðsins og eftir atvikum framkvæmdaáætlunar ráðuneytis, sbr. 9. gr. starfsreglna jafnréttisfulltrúa.

Endurskoðun

Sérfræðingur Stjórnarráðsins í jafnrétti kynja hafi forgöngu um endurskoðun jafnréttisáætlunar Stjórnarráðsins á þriggja ára fresti.

Gildistími

Jafnréttisáætlun þessi gildir frá 1. mars 2013.


Samþykkt á fundi ráðuneytisstjóra 22. janúar 2013

Til baka