Hoppa yfir valmynd
4. desember 2012

Verk ríkisstjórnarinnar – uppbygging og umbætur

Séð yfir Reykjavík
Séð yfir Reykjavík
Séð yfir Reykjavík

1.    HELMINGI MINNA ATVINNULEYSI:  Atvinnuleysi varð mest um 9% í kjölfar bankahrunsins. Á miðju árinu 2011 voru 6,6% án atvinnu og var atvinnuleysið þá hið sjöunda minnsta í Evrópu. Á miðju árinu 2012 var atvinnuleysið komið niður í 4,8%. Til samanburðar má nefna að það tók Finna 18 ár að ná atvinnuástandinu í samt lag eftir kreppuna sem reið yfir landið snemma á tíunda áratugnum.

Í skýrslu Þjóðmálastofnunar Háskóla Íslands haustið 2012 er talið líklegt að vernd lægri tekjuhópa og hamlandi aðgerðir gegn ójöfnuði hafi haft mikla þýðingu fyrir viðhald einkaneyslu sem að sínu leyti hafi haldið atvinnuleysi í skefjum í meira mæli en hjá öðrum þjóðum. Blönduð leið skattabreytinga og niðurskurðar, með sérstaka áherslu á að verja velferðarkerfið og kjör lægst launuðu hópana, markaði leiðina að þessari niðurstöðu sem vakið hefur athygli víða um lönd í kjölfar alþjóðlegu fjármálakreppunnar.

2.    ENDURREISN BANKANNA: Í desember 2009 var endurreisn bankanna lokið eftir fall þeirra í október 2008. Hlutafjárframlag ríkissjóðs reyndist 250 milljörðum króna lægra en upphaflega hafði verið ráðgert. Vaxtakostnaður varð því um 46 milljörðum króna lægri en áætlað hafði verið. Bankarnir hafa staðið á traustum grunni allar götur síðan.
Heildar fjárbinding ríkisins vegna bankanna varð sem hér segir:
Landsbankinn    122 milljarðar króna
Arion banki           33,4 milljarðar króna
Íslandsbanki        28,3 milljarðar króna
Ríkið á enn hluti í bönkunum; 81% í Landsbankanum, 13% í Arion banka og 5% í Íslandsbanka. Ríkisstjórnin tekur arð af hlut sínum í bönkunum. Á dagskrá er að selja þessa hluti á almennum markaði, þó ekki nema hluta af eign ríkisins í Landsbankanum.

(„Og þar sem stór hluti fyrirtækja í landinu var í vanskilum hjá bönkunum eftir hrunið hefði ríkið því í raun svo gott sem átt stóran hluta margra fyrirtækja í landinu. Við hefðum verið ansi nálægt fullkomnum sósíalisma þar sem ríkið hefði getið hafist handa við fyrirgreiðslupólitík og miðstýringu af áður óþekktri stærðargráðu. En þess í stað einkavæddi þessi fyrsta vinstristjórn Íslandssögunnar tvo af bönkunum þremur á skömmum tíma án spillingar. Það verður að teljast talsvert afrek.“ - Jón Steinsson hagfræðingur.)

3.    RÁÐUNEYTUM FÆKKAÐ ÚR 12 Í 8: Markmið þeirra breytinga sem gerðar hafa verið á Stjórnarráðinu á kjörtímabilinu eru að gera það skilvirkara og skerpa og skýra verkaskiptingu milli ráðuneyta. Samhliða fækkun ráðuneyta úr 12 í 8  hafa verið gerðar breytingar á lögum um Stjórnarráð Íslands sem m.a. fela í sér aukna áherslu á samvinnu og samstarf milli ráðuneyta. Með breytingunum er lögð lokahönd á þá endurskipulagningu á Stjórnarráðinu sem boðuð var í upphafi kjörtímabilsins og eru þær umfangsmestu sem gerðar hafa verið frá upphafi.
Endanlegar breytingar tóku gildi 1. september 2012 og eru ráðuneytin sem hér segir: Forsætisráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti, innanríkisráðuneyti, umhverfis-og auðlindaráðuneyti, velferðarráðuneyti og utanríkisráðuneyti.

(„[Það] hefur mörgum þótt loða við sérstaklega landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytið að þau væru veik gagnvart sínum atvinnugreinum og væru kannski of nátengd þeim. Sameinað ráðuneytið ætti að hafa burði til að vera faglega sterkara og með meiri möguleika á sérhæfingu og sérþekkingu...“ – Gunnar Helgi Kristinsson stjórnmálafræðiprófessor.)

4.    FJÁRFESTINGARÁÆTLUN: Ríkisstjórnin lagði fram fjárfestingaráætlun fyrir Ísland árin 2013 til 2015 í maí 2012. Markmið hennar eru að styðja við hagvöxt og fjölbreytni í atvinnulífi. Fjárfestingaráætlunin er sett fram á grunni þess að ríkissjóður endurheimti stóran hluta af því fé sem lagðir voru fram til að endurfjármagna bankakerfið. Jafnframt er gert ráð fyrir að fjárfestingar verði fjármagnaðar með tekjum ríkissjóðs af auknum veiðigjöldum, sem lögfest hafa verið, og að þjóðin fái þannig aukna hlutdeild í arðinum af sjávarauðlindinni.  Áætlað er að um 40 milljarðar króna renni samtals til  fjárfestingarverkefna næstu þrjú árin. Með tekjum af veiðigjaldi verða samgöngumannvirki fjármögnuð (m.a. gerð jarðganga flýtt) sem og rannsókna- og tækniþróunarsjóðir. – Með arði af hlut ríkisins í bönkunum og síðar sölu þeirra er ráðgert að fjármagna uppbyggingu ferðamannastaða,  efla skapandi greinar og grænar lausnir í hagkerfinu. Þá er einnig gert ráð fyrir að fé renni til viðhalds og nýbygginga á næsta ári, svo sem 1 milljarður króna til fangelsis, og annað eins til smíði nýrrar Vestmananeyjaferju. Alls verður því yfir 10 milljörðum króna varið til verkefna á árinu 2013 í samræmi við fjárfestingaáætlun fyrir Ísland.

(„Ljóst er að ef áætlunin verður að veruleika, og margfeldisáhrif á fjárfestingu einkaaðila verða eins og gert er ráð fyrir, gæti það haft talsverð áhrif bæði á fjárfestingu á vegum hins opinbera og fjármunamyndun í landinu almennt.“ – Greiningardeild Arionbanka.)

5.    SIÐAREGLUR RÁÐHERRA OG STARFSFÓLKS STJÓRNARRÁÐSINS: Innleiddar hafa verið siðareglur fyrir ráðherra og starfsmenn Stjórnarráðs Íslands. Siðareglur eru settar í því skyni að efla traust á stjórnsýslunni. Þær veita leiðsögn um það hvers konar framganga hæfir svo veigamiklum embættum eins og ráðherraembættum en jafnframt gefa þær almenningi færi á að bera hegðun ráðherra saman við skráðar og útgefnar reglur.
Siðareglum starfsmanna Stjórnarráðs Íslands er ætlað að efla fagleg vinnubrögð og auka traust á stjórnsýslunni. Þær endurspegla tiltekin grunngildi í opinberum störfum eins og heilindi, óhlutdrægni og skilvirkni.

(„Þessi nálægð stjórnsýslunnar við hið pólitíska vald getur skapað hagsmunaárekstra og spillingu sem meðal annars hefur orðið mörgum þjóðum hvati til þess að setja siðareglur innan opinberrar stjórnsýslu.“ – Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis.)

Tengdar greinar:

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum