Hoppa yfir valmynd
17. janúar 2013

Viðsnúningur staðfestur: fleiri flytjast til landsins en af landi brott

Fólk

Aðfluttir umfram brottflutta eftir ársfjórðungumÍ fyrsta skipti frá hruninu árið 2008 flytjast nú umtalsvert fleiri til landsins en frá því. Um er að ræða verulegan viðsnúning á síðasta ársfjórðungi eins og fram kemur í gögnum sem Hagstofa Íslands birti í dag. Þá fluttu 630 manns til landsins umfram þá sem fluttu af landi brott.

Alls fluttu 1.630 manns til landsins á síðasta ársfjórðungi 2012 en 1.000 fluttu af landi brott. Flestir þeirra sem fluttu til landsins komu frá Danmörku (220), Noregi (170) og Svíþjóð (100).

Aðeins einu sinni frá hruninu í október 2008 hafði jöfnuður aðfluttra og brottfluttra verið jákvæður, en það var á fyrsta ársfjórðungi í fyrra. Munurinn var ekki mikill; 10 manns fluttu til landsins umfram þá sem fluttu af landi brott.  

Reyndin er sú að ástandið hefur farið batnandi mörg undanfarin misseri. Árið 2011 fóru liðlega 1.400 af landi brott umfram þá sem fluttu til landsins. Í fyrra fluttu aðeins 250 fleiri af landi brott en fluttu til landsins.

Brottflutningar og hagvöxturGreining Íslandsbanka leggur út af þessum tíðindum í Morgunkorni og segir meðal annars. „Í fjögur ár samfellt eða frá bankahruni hefur verið nettó brottflutningur frá landinu en árið 2009 náðu þessir brottflutningar hámarki þegar 4.835 fleiri fluttu frá landinu en til þess. Núna virðist hins vegar þessi þróun hafa snúist við samhliða því að hagkerfið hefur náð bata. Með þeim hagvexti sem hér er spáð á næstu árum ætti að fást staðfesting á því að viðsnúningur hafi orðið í þessum málum.“

Meðfylgjandi myndir, sem birtar eru með leyfi Greiningar Íslandsbanka, tala sínu máli. Önnur þeirra sýnir viðsnúninginn sem orðið hefur á síðustu misserum. Neðri myndin sýnir hvernig hagvöxtur og þá væntanlega ástand á vinnumarkaði helst í hendur við flutninga til og frá landinu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum