Hoppa yfir valmynd
23. janúar 2013

Fjárhagsstaða íslenskra heimila - ræða forsætisráðherra

Séð yfir Reykjavík
Séð yfir Reykjavík
Hér  fer ræða forsætisráðherra í umræðu um fjárhagstöðu heimilanna sem fór fram á Alþingi, 23. janúar 2013.

(Talað orð gildir).

Hæstvirtur forseti
Eitt stærsta verkefni ríkisstjórnar þegar hún tók við stjórn landsins var fjárhagsvandi heimilanna. Fordæmalaust hrun á krónunni og þrot fjármálafyrirtækja orsakaði vanda á nánast sérhverju heimili í landinu.
Skuldastaða heimila fór úr 108% af landsframleiðslu sumarið 2007 og í 127% af landsframleiðslu 15 mánuðum síðar. Hækkunin nam um 20%-stigum sem eru um 300 milljarðar króna hækkun á rúmu ári.
Sé hins vegar heildarskuldastaða íslenskra heimila skoðuð nú, sést að hún er komin niður í það sem hún var fyrir hrun árið 2007 og eru íbúðaskuldir heimila svipaðar og þær voru í upphafi eignarbólunnar árið 2004 og hefur yfirveðsettum heimilum fækkað talsvert.

Þessi mikla lækkun skulda heimila er bæði vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar og getu heimilanna til að greiða niður skuldir sínar ásamt endurútreikningi erlendra lána.
Íbúðaeigendur hafa síðustu tvö ár fengið um 35% vaxtakostnaðar vegna húsnæðislána endurgreiddan úr ríkissjóði og var þetta hlutfall næstum tvöfaldað frá því sem áður var.
Sé litið til tekjulægstu 10% heimila árið 2010 þá niðurgreiddi ríkið næstum því helming alls vaxtakostnaðar þess hóps.

Á kjörtímabilinu hefur ríkisstjórnin varið um 100 milljörðum króna í vaxtabætur og barnabætur.
Fasteignalán hafa verið færð niður um 46 milljarða vegna 110% leiðarinnar. Þetta úrræði hefur ekki síst gagnast þeim sem keyptu fasteign rétt fyrir hrun.
Þá hefur greiðsluaðlögun einstaklinga, sértæk skuldaðlögun og greiðslujöfnun sömuleiðis hjálpað þúsundum einstaklinga.
 
Samkvæmt mælingum Capacent hefur þeim eru mjög ánægðir með lífið og bjartsýnir á framtíðina fjölgað um helming, farið úr 43% árið 2010 og í 62%. Þeim sem eru í basli fækkaði á sama tíma úr 53% í 35%.
Atvinnuleysi hefur minnkað um helming, kaupmáttur launa er meiri en þegar ríkisstjórnin tók við og  og frá botni kreppunnar hefur hann vaxið um 8 prósentustig. Sé tímabilið 2008-2010 borið saman við 2009-2011 sést að ráðstöfunartekjur heimila hafa hækkað meira en neysluútgjöld þeirra. Þróunin í búferlaflutningum hefur einnig verið í rétta átt. Umtalsvert fleiri flytja nú til landsins en frá því, bæði erlendir ríkisborgar og Íslendingar.
Álagning ríkisskattstjóra vegna ársins 2011 staðfestir viðsnúninginn í afkomu heimilanna en nettóeign heimila, skilgreind sem heildareignir að frádregnum heildarskuldum, jókst um tæp 17% á milli ára.

Að lokum er verðbólgan aðeins fjórðungur þess  sem hún var þegar stjórn Samfylkingar og Vinstri grænna tók við völdum árið 2009 og kemur það heimilum með verðtryggð lán ekki síst vel.
Hins vegar, geri ég mér fulla grein fyrir því, að enn eru hópar fólks í samfélaginu í vanda s.s. þeir sem keyptu fasteign á árunum rétt fyrir hrun. 110% leiðin kom nokkuð til móts við þann hóp, það má áætla að um 7.000 heimili hafi keypt sína fyrstu íbúð á árunum 2005 til 2010. Skapist svigrúm sem sátt getur náðst um, tel ég að koma eigi til móts við þennan hóp.
Þá finnst mér koma til greina að skoða þaksetningu á verðtryggingu ef um það getur náðst sátt. Það ber þó að hafa í huga að árlegur kostnaður þess að setja 4% þak á verðbætur allra verðtryggðra fasteignalána landsins yrði um 17 milljarðar króna.

Ríkisstjórnin hefur lengi átt í viðræðum við lífeyrissjóðina um lausn vegna lánsveða en án nokkurar niðurstöðu. Lífeyrissjóðirnir hafa dregið lappirnar í þessu máli og er nú gerð lokatilraun til að ná samkomulagi og vonandi skýrist það innan tíðar.
Hópurinn með erlendu lánin hefur fengið um 150 milljarða króna afskriftir en  frekari endurútreikningur mun væntanlega skila heimilunum enn frekari afskriftum, og höfum við í ríkisstjórninni á fundum með bankastjórum lagt áherslu á að hraða þeim eins og mögulegt er.
Ég hef boðið framsóknarmönnum að fara yfir kostnað og áhrif þeirra  hugmynda um að beita skattakerfinu til að mæta skuldavanda heimilanna en ekki fengið nein viðbrögð við því.
Ég hef verið reiðubúin að skoða öll raunhæf úrræði sem gætu gagnast þeim sem keyptu íbúð rétt fyrir hrun eða sem tryggðu þak á verðtrygginguna. Og skiptir engu máli úr hvaða átt slíkar tillögur kæmu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum