Hoppa yfir valmynd
2. apríl 2013

Verk ríkisstjórnarinnar - uppbygging og umbætur VI

Húsavík
Húsavík26. Fjárfestingar á Bakka:

Undirrituð hefur verið yfirlýsing um samstarf ríkisins við Norðurþing, Hafnarsjóð Norðurþings og þýska iðnfyrirtækið PCC vegna fyrirhugaðra framkvæmda við smíði kísilvers á Bakka við Húsavík. Alþingi hefur jafnframt veitt atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra heimild til að gera fjárfestingarsamning vegna kísilversins og heimild til að fjármagna vegtengingu milli Húsavíkur og Bakka og til stækkunar Húsavíkurhafnar. Talið er hagkvæmast að gera göng í gegn um Húsavíkurhöfðann og er kostnaður við framkvæmdirnar áætlaður um 1,8 milljarðar króna. Einnig  er gert ráð fyrir að með heimildinni frá Alþingi  greiði ríkið fyrir víkjandi 800 milljóna króna láni vegna hafnarframkvæmda í tengslum við nýja iðnaðarsvæðið á Bakka.

Fjárfestingin nýtist ekki aðeins framkvæmdum við kísilverið, heldur er hún frumforsenda þess að þetta verkefni geti, sem önnur, orðið að veruleika á svæðinu og að fjárfest sé í atvinnuskapandi og arðvænlegum verkefnum þar með. Þetta er því nauðsynleg fjárfesting í innviðum sem auðveldar frekari fjárfestingar á svæðinu í framtíðinni.

Fyrirhuguð fjárfesting vegna byggingar kísilvers á Bakka við Húsavík er áætluð um 28 milljarðar króna. Ótaldar eru þá fjárfestingar í virkjunum, í flutningskerfi, innviðum og ýmiss konar smærri framkvæmdum sem fylgja munu í kjölfarið þannig að samanlagt umfang þeirra verður umtalsvert. Verksmiðjan veitir fullbyggð nálægt 200 manns atvinnu.

27. Sanngirnisbætur: Vorið 2010 var ákveðið með lögum að greiða sanngirnisbætur fyrir misgjörðir á stofnunum og heimilum fyrir börn. Lögin kveða á um bætur allt að 6 milljónum króna til handa einstaklingum sem urðu fyrir varanlegum skaða vegna illrar meðferðar eða ofbeldis á tilteknum stofnunum eða heimilum.

Með illri meðferð eða ofbeldi  er átt við hvers kyns refsiverða líkamlega valdbeitingu gagnvart barni og aðra líkamlega valdbeitingu þar sem valdið er óþarfa sársauka. Í lögunum á þetta einnig við um ógnandi, vanvirðandi eða niðurlægjandi athafnir gagnvart barni. Loks geta sanngirnisbætur átt við um athafnir sem eru til þess fallnar að misbjóða barni eða vanrækja á annan hátt uppeldi þess svo mjög að líkamlegri eða andlegri heilsu þess eða þroska sé mikil hætta búin.

Með varanlegum skaða er átt við varanlegar neikvæðar líkamlegar, sálrænar eða félagslegar afleiðingar.

Forsætisráðherra endurskipaði vistheimilanefnd árið 2012 með það fyrir augum að taka til sérstakrar rannsóknar vistun og aðbúnað barna með fötlun á opinberum stofnunum.

28. Réttindi og aðgengi  fatlaðra: Íslenskt táknmál er nú móðurmál þeirra sem ekki hafa næga heyrn til að tileinka sér íslenska tungu til daglegra samskipta. Íslenskt táknmál er nú fyrsta mál heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra.

Gerður hefur verið samningur við Blindrafélagið um starfrækslu s.k. veflesara fyrir opinbera vefi og vefmiðla. Samningurinn er gerður í samræmi við yfirlýsta stefnu ríkisstjórnarinnar sem stuðlar að bættu aðgengi, m.a. blindra og sjónskertra, að því efni sem er að finna á opinberum vefjum og vefmiðlum.

Réttindagæsla fyrir fatlaða hefur verið leidd í lög. Fatlaðir eiga nú meðal annars rétt á persónulegum talsmanni sem gætir hagsmuna þeirra.

29. Skýrara hlutverk ríkisútvarpsins: Ný og endurskoðuð lög um Ríkisútvarpið hafa verið afgreidd frá Alþingi. Með lögunum er aukin áhersla lögð á almannaþjónustuhlutverk Ríkisútvarpsins og hlutverki og skyldum Ríkisútvarpsins sem fjölmiðlaþjónusta í almannaþágu er lýst á ítarlegri hátt en áður. Meðal annars er skilið á milli fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu og annarrar starfsemi Ríkisútvarpsins, sem fara á fram í dótturfélögum.
Umsvif Ríkisútvarpsins á  auglýsingamarkaði er nú takmarkaðri en áður og  lagt er bann við að Ríkisútvarpið afli sér tekna með kostun dagskrárliða, nema í ákveðnum undantekningartilvikum.

Breytingar hafa verið gerðar á skipan og fyrirkomulagi við val á stjórn Ríkisútvarpsins. Ráðherra tilnefnir formann stjórnar og starfsmannasamtök Ríkisútvarpsins einn áheyrnarfulltrúa í stjórn. Fimm aðrir stjórnarmenn er tilnefndir af svokallaðri valnefnd sem skipuð er fulltrúum Alþingis, Bandalags íslenskra listamanna og samstarfsnefnd háskólastigsins.

Mælt er fyrir um sérstaka vernd í starfi fyrir starfsmenn fréttastofu og dagskrárgerðarmenn og geta þeir nú krafist skriflegra skýringa á brottrekstri.

Kveðið er nú á um að óháður aðili, Fjölmiðlanefnd, leggi mat á frammistöðu Ríkisútvarpsins sviði fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu. Loks er mælt fyrir um að Ríkisútvarpið setji sér reglur um meðferð athugasemda og kvartana sem berast frá almenningi.

30. Samþykkt barnasáttmála: Alþingi hefur lögfest Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Ísland og Noregur eru einu löndin sem lögfest hafa sáttmálann, en öll aðildarríki Sameinuðu þjóðanna hafa fullgilt Barnasáttmálann nema Suður-Súdan, Sómalía og Bandaríkin.

Barnasáttmálinn var samþykktur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna árið 1989 og fullgiltur á Íslandi árið 1992. Með lögfestingu sáttmálans hefur hann bein réttaráhrif hér á landi.

Barnasáttmálinn felur í sér alþjóðlega viðurkenningu á að börn séu hópur sem þarnfist sérstakrar verndar umfram hina fullorðnu og kveður á um ýmis réttindi þeirra.
Ráðgert er að endurskoða barnaverndarlög með hliðsjón af lögfestingu Barnasáttmálans.

Fyrri greinar:
Verk ríkisstjórnarinnar - uppbygging og umbætur I
Verk ríkisstjórnarinnar - uppbygging og umbætur II
Verk ríkisstjórnarinnar - uppbygging og umbætur III
Verk ríkisstjórnarinnar - uppbygging og umbætur IV
verk ríkisstjórnarinnar - uppbygging og umbætur V

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum