Hugmyndafræði og forsaga

Hugmyndafræði og forsaga sóknaráætlana landshluta


Sóknaráætlanir landshluta snúast í grunninn um valdeflingu og valddreifingu í anda opins lýðræðis Sóknaráætlanir eru samskiptaás ríkis og sveitarfélaga og er þeim ætlað að einfalda og efla samskipti stjórnsýslustiganna og tryggja gagnsæi, hagkvæmni og skilvirkni við úthlutun og umsýslu fjárveitinga úr ríkissjóði sem ekki fara til lögbundinna verkefna í landshlutum.

Markmiðið er að þeir fjármunir sem varið er til verkefna í einstökum landshlutum á sviði atvinnumála, byggða- og samfélagsþróunar byggi á svæðisbundnum áherslum og markmiðum sem fram koma í sóknaráætlun landshlutans og fari um einn farveg á hverjum stað. Með þeirri valddreifingu sem breytt verklag felur í sér fá heimamenn aukið vægi við ákvörðun um ráðstöfun almannafjár. Heimamenn mynda með sér samráðsvettvang, undir forystu landshlutasamtaka sveitarfélaga, sem forgangsraðar verkefnum og er sóknaráætlunum ætlað að endurspegla áherslur landshlutans og samræmast heildarstefnumótun og áætlanagerð ríkisins.

Um sóknaráætlanir landshluta segir í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna árið 2009:

Ríkisstjórnin mun efna til víðtæks samráðs undir forystu forsætisráðuneytisins um sóknaráætlanir fyrir alla landshluta til eflingar atvinnulífs og lífsgæða til framtíðar. Markmiðið er að kalla fram sameiginlega framtíðarsýn og að samþættar verði áætlanir í samgöngumálum, fjarskiptamálum, ferðamálum og byggðaáætlanir auk áætlana um eflingusveitarstjórnarstigsins og ýmsa vaxtarsamninga og aðra opinbera stefnumótun og framkvæmdaáætlanir sem ætla má að komi til endurskoðunar í kjölfar efnahagshrunsins.


Snemma árs 2010 voru haldnir þjóðfundir í öllum landshlutum þar sem þúsund Íslendinga tók þátt. Þjóðfundirnir og vinnan í kringum þá leiddu m.a. af sér stefnumótunarskjalið Ísland 2020 sem samþykkt var í ríkisstjórn í janúar 2011. Sóknaráætlanir landshluta eru eitt af lykilverkefnum í Ísland 2020 og um það segir m.a. í Ísland 2020 - sókn fyrir atvinnulíf og samfélag (janúar 2011):

Sóknaráætlanir verða unnar fyrir hvern landshluta… Auk fjármögnunar einstakra verkefna í fjárfestingaráætlun til langs tíma verði utanumhald og einstök verkefni sóknaráætlana landshluta fjármagnaðar með sameiningu vaxtarsamninga, menningarsamninga og endurskipulagningu og sameiningu á stoðkerfi atvinnu- og byggðaþróunar. Áætlanirnar leggi markmið Íslands 2020 til grundvallar, auk hugmynda og áherslna sem fyrir liggja eftir þjóðfundi landshluta og stefnumörkun landshlutasamtaka í kjölfar þeirra. Forgangsröðun einstakra verkefna á hverju svæði verði á hendi heimafólks. Skilgreindur verði sameiginlegur vettvangur sveitarstjórna og fulltrúa atvinnulífs og stofnana á hverju svæði sem komi í stað hinna ýmsu stjórna og nefnda sem koma að málum í núverandi skipulagi.


Á vegum mennta- og menningarráðuneytisins var unnin skýrsla árið 2010 um þekkingarsetur og stoðstofnanir á Íslandi, unnin úr gögnum frá árinu 2009. Þar kom fram að tæplega 200 starfsstöðvar eru reknar vítt og breitt um landið, utan höfuðborgarsvæðisins og heildartekjurnar rúmlega 5 milljarðar. Að mestu er þetta fé í formi styrkja og samninga til einstakra verkefna. Vilji er til þess að einfalda þetta fyrirkomulag, gera það skilvirkara og nýta fjármuni betur til verkefna í hverjum landshluta. Vorið 2012 vann stýrinetið samantekt úr þessari skýrslu og flokkaði starfsstöðvarnar enn frekar en gert var í frumskýrslunni eftir eðli starfseminnar, lagalegri stöðu og fjármögnun. Flokkunum felur í sér mat á því hvort viðkomandi starfsemi geti mögulega verið sameinuð stoðstofnun í landshluta á einhverjum tímapunkti. Sú starfsemi sem talin var best fallin til að sameinast í eina stoðstofnun í fyrsta áfanga tengist atvinuráðgjöf, vaxtarsamningum, menningarsamningum, auk menntunar og fræðslu. Um er að ræða 47 starfsstöðvar með heildartekjur upp á rúma 2 milljarða. Eftir samráð við fræðslumiðstöðvar haustið 2012 var ákveðið að setja þá starfsemi í sérflokk. Samantekt stýrinetsins er vinnugagn sem var m.a. lagt til grundvallar samþykkt ríkisstjórnarinnar þann 22. júní 2012.

Ábyrgð á sóknaráætlun landshluta var upphaflega sameiginleg hjá innanríkisráðuneyti og iðnaðarráðuneyti, með aðkomu forsætisráðuneytisins. Fljótlega eftir að verkefnið fór af stað, vorið 2011, kom í ljós að mikilvægt var að fleiri ráðuneyti kæmu að því og sú varð raunin. Stýrinet Stjórnarráðsins var svo skipað um verkefnið vorið 2012, en þar á sæti einn sérfræðingur frá hverju ráðuneyti. Samband íslenska sveitarfélaga hefur einnig tekið virkan þátt í verkefninu og á framkvæmdastjóri sambandsins sæti í stýrinetinu og frá upphafi hefur mikil samvinna verið við landshlutasamtök sveitarfélaga. Verkefnið er sporfaraverkefni (e. pilot project) sem tilvalið er til að reyna þá samvinnu og samhæfingu, sem lögð er áhersla á í skýrslunni Samhent stjórnsýsla (forsætisráðuneytið, desember 2010). Það á ekki hvað síst við um sjálft fjárlagaferlið

Sóknaráætlanir eru tilraunaverkefni sem hefur þróast í samstarfi ríkis og sveitarfélaga og frá því að verkefnið var fyrst kynnt hefur það tekið nokkrum breytingum. Fjölmargir fundir hafa verið haldnir um hugmyndafræðina og útfærsluna. Leiðarljósið er þó ávallt það sama – að færa aukin völd og aukna ábyrgð til landshlutanna. Sem dæmi um mílusteina sem varða þróun verkefnisins má nefna að í lok árs 2011 ákvað ríkisstjórnin að setja alls tæplega 500 m.kr. í sóknáráætlunarverkefni fyrir árið 2012-2015. Fyrirkomulagið var þannig að landshlutarnir sendu verkefnatillögur til Stjórnarráðsins sem ákvað hvaða verkefni hlutu brautargengi, en alls voru það 11 verkefni í öllum landshlutum. Þá eru skipan stýrinets og ráðning verkefnisstjóra vorið 2012 einnig mílusteinar í þróun verkefnisins sem og skipan samráðsvettvanga í öllum landshlutunum og skil á sóknaráætlunum í febrúar 2013.

Verkefnið hefur nokkrum sinnum komið inn á borð ríkisstjórnarinnar eftir að það var samþykkt í janúar 2011, sem og ráðherranefndar um ríkisfjármál. Þannig voru drög að útfærslu sóknaráætlana rædd á ríkisstjórnarfundi á Egilsstöðum 8. maí 2012 og 22. júní sama ár samþykkti ríkisstjórn sameiginlegan skilning Stjórnarráðsins að útfærslu sóknaráætlana landshluta árin 2012-2020. Í þeirri samþykkt eru lögð fram drög að skilgreiningu á hugtakinu byggðarmál þar sem segir:

Byggðamál eru öll þau viðfangsefni sem hafa áhrif á lífsgæði og samkeppnishæfni landshluta, s.s. búsetu, atvinnu og nýsköpun. Þau snúa að eflingu samfélaga, félagsauðs, atvinnulífs, menntunar, menningar, velferðarmála, samgangna og fjarskipta.


Við gerð fjárfestingaáætlunar fyrir Ísland árið 2012 var ákveðið að verja 400 m.kr. af fjárlögum til sóknaráætlana landshluta sem áttu að reyna ferlið þar sem vaxta- og menningarsamningar renna ekki út fyrr en í lok árs 2013. Þann 27. nóvember 2012 samþykkti ríkisstjórnin tillögu stýrinetsins um það hvernig fjármununum yrði skipt milli landshlutanna og var það gert eftir gagnsæjum og skýrum viðmiðum. Um miðjan febrúar 2013 liggja sóknaráætlanir allra landshluta fyrir og þar kemur meðal annars fram hvernig hver landshluti hyggst verja sínum fjármunum. Í framhaldinu gera fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkisins og landshlutasamtök sveitarfélaga samning um framkvæmd sóknaráætlunar.