Hoppa yfir valmynd
2. október 2013 Forsætisráðuneytið

Þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar 2013-2014

Samkvæmt 1. mgr. 47. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, með síðari breytingum, skal fylgja eftirriti stefnuræðu forsætisráðherra við upphaf þings yfirlit um þau mál sem ríkisstjórn hyggst leggja fram á þinginu ásamt áætlun um hvenær þeim verður útbýtt. Yfirlit fyrir 143. löggjafarþing fer hér á eftir. Fram kemur hvort ætlunin er að leggja mál fram að hausti eða vori. Flutt kunna að verða fleiri frumvörp en getið er og atvik geta hindrað flutning einstakra frumvarpa. Jafnframt eru taldar upp fyrirhugaðar tillögur til þingsályktana og helstu skýrslur sem ætlunin er að leggja fram. Í samræmi við 2. mgr. 47. gr. laganna mun ríkisstjórnin jafnframt við upphaf vetrarþings, að loknu jólahléi, afhenda forseta Alþingis endurskoðaða áætlun um framlagningu stjórnarfrumvarpa á vetrar- og vorþingi ásamt áætluðum útbýtingardegi.

Þingmálaskráin í PDF-skjali til útprentunar

Forsætisráðherra

  1. Frumvarp til laga um regluráð (breytt heiti ráðgjafarnefndar um opinberar eftirlitsreglur og aukið hlutverk hennar varðandi einfaldara og skilvirkara regluverk fyrir atvinnulífið) 
    Frumvarpið er afrakstur endurskoðunar laga nr. 27/1999, um opinberar eftirlitsreglur. Rétt þykir að flytja ný heildarlög er leysi þau lög af hólmi. Markmiðið með frumvarpinu er að stuðla að því að ákvarðanir um laga- og reglusetningu byggist á vönduðu mati á áhrifum og að rökstutt verði hverju sinni að leitað hafi verið einfaldra og hagkvæmra leiða. Jafnframt verða skapaðar forsendur til að öðlast heildarsýn yfir þróun regluverks varðandi atvinnulífið. Í þessu skyni verður lagt til að víkka út gildissvið laganna, auka gagnsæi í störfum og hlutverk regluráðs (áður ráðgjafarnefndar um opinberar eftirlitsreglur) þannig að auknar kvaðir verði lagðar á stjórnvöld til að bera nýjar reglur sem hafa umtalsverð áhrif á atvinnulífið (fyrir utan skatta og gjöld) undir ráðið. Þessar breytingar tengjast aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar um einfaldara og skilvirkara regluverk fyrir atvinnulífið, sbr. einnig stefnuyfirlýsingu hennar. (Haust)
  2. Frumvarp til laga um breytingu á stjórnsýslulögum, nr. 37/1993 (þagnarskylda) 
    Með frumvarpinu verður stefnt að því að einfalda og samræma lagaákvæði um þagnarskyldu opinberra starfsmanna og skýra skyldur þeirra varðandi meðferð trúnaðarupplýsinga. Frumvarpið styðst meðal annars við ábendingar frá stýrihópi mennta- og menningarmálaráðherra um framkvæmd þingsályktunar um að Ísland skapi sér afgerandi lagalega sérstöðu varðandi tjáningar- og upplýsingafrelsi. (Haust)
  3. Frumvarp til laga um breytingu á upplýsingalögum, nr. 140/2012 (birting upplýsinga að frumkvæði stjórnvalda)
    Við undirbúning innleiðingar 13. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, um birtingu upplýsinga að frumkvæði stjórnvalda hefur komið í ljós að orða þurfi ákvæðið skýrar þannig að ljóst sé hvaða upplýsingar megi birta er varða t.d. þá sem eiga í skriflegum samskiptum við stjórnvöld. (Haust)
  4. Frumvarp til laga um sérstök verndarsvæði í byggð 
    Frumvarpinu er ætlað að ná fram markmiðum í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um vernd sögulegrar byggðar. Frumvarpið verður unnið í samráði við umhverfis- og auðlindaráðuneytið vegna tengsla við skipulagslöggjöf. (Vor)
  5. Frumvarp til laga um hamfarasjóð 
    Í frumvarpinu verður kveðið á um stofnun sérstaks hamfarasjóðs til greiðslu bóta vegna tjóns af völdum náttúruhamfara. Nefnd nokkurra ráðuneyta er að störfum til að undirbúa frumvarpið. (Vor)
  6. Skýrsla forsætisráðherra um framkvæmd þingsályktana frá árinu 2012
    Árlega skýrsla. (Haust)
  7. Skýrsla forsætisráðherra um málefni þjóðlenda
    Árlega skýrsla. (Vor)
  8. Skýrsla forsætisráðherra um starf samhæfingarnefndar um siðferðileg viðmið fyrir stjórnsýsluna
    Árlega skýrsla. (Haust)

Félags- og húsnæðismálaráðherra

  1. Frumvarp til laga um lögfestingu Norðurlandasamnings um almannatryggingar
    Nýr samningur var undirritaður í júní 2012. Gert er ráð fyrir að nýi samningurinn verði lögfestur eins og eldri samningur. Þingsályktun um staðfestingu samningsins var samþykkt á Alþingi 15. mars 2013. Endurflutt. (Haust)
  2. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008 (vörukaup, þjónusta o.fl.)
    Lagðar eru til nauðsynlegar breytingar á lögunum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla til innleiðingar á tilskipun 2006/54/EB um framkvæmd meginreglunnar um jöfn tækifæri og jafna meðferð karla og kvenna að því er varðar atvinnu og störf (endurútgefin), tilskipun 2010/41/EB um beitingu meginreglunnar um jafna meðferð karla og kvenna sem stunda sjálfstæðan atvinnurekstur og um niðurfellingu á tilskipun ráðsins 86/613/EBE. og tilskipun 2004/113/EB um bann við mismunun kynjanna við vörukaup og þjónustu. (Haust)
  3. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, og lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999
    Lagðar verða til breytingar á ákvæðum laga um almannatryggingar er varða upplýsingaskyldu, eftirlitsheimildir og meðferð persónuupplýsinga. Þá verður lagt til að ákvæði til bráðabirgða í lögum um málefni aldraðra er varðar kostnaðarþátttöku heimilismanna á dvalar- og hjúkrunarheimilum verði framlengt um eitt ár. (Haust) 
  4. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um evrópsk samstarfsráð í fyrirtækjum, nr. 61/1999
    Lagðar eru til nauðsynlegar breytingar á lögunum um evrópsk samstarfsráð í fyrirtækjum til að tryggja innleiðingu á tilskipun 2009/38/EB um evrópsk samstarfsráð í fyrirtækjum. Fyrrgreind tilskipun er endurútgáfa á tilskipun 94/45/EBE um evrópsk samstarfsráð í fyrirtækjum, með síðari breytingum. (Haust)
  5. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97/2002, og lögum um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins, nr. 47/1993
    Innleiðing á reglugerð (ESB) nr. 492/2011 um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins. (Haust) 
  6. Frumvarp til laga um breytingu á barnaverndarlögum, nr. 80/2002
    Endurskoðun ákvæða um flutning heimila og stofnana fyrir börn skv. 79. gr. laganna frá sveitarfélögum til ríkisins. (Haust) 
  7. Frumvarp til laga um jafna meðferð á vinnumarkaði
    Frumvarpið felur í sér meginregluna um jafna meðferð einstaklinga á vinnumarkaði óháð kynþætti eða þjóðernisuppruna, trú eða lífsskoðun, fötlun eða skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð eða kynvitund. Ákvæði frumvarpsins taka mið af tilskipun 2000/78/EB um jafna meðferð á vinnumarkaði og þess hluta tilskipunar 2000/43/EB um jafna meðferð án tillits til kynþáttar eða þjóðernisuppruna, sem varðar vinnumarkaðinn. (Haust) 
  8. Frumvarp til laga um jafna meðferð óháð kynþætti eða þjóðernisuppruna 
    Frumvarpið felur í sér meginregluna um jafna meðferð einstaklinga óháð kynþætti eða þjóðernisuppruna á öllum sviðum samfélagsins nema á vinnumarkaði, svo sem lýtur að félagslegri vernd, menntun og aðgengi að vörum og þjónustu. Ákvæði frumvarpsins taka mið af þeim hluta tilskipunar 2000/43/EB sem varðar ekki vinnumarkaðinn. (Haust) 
  9. Frumvarp til laga um stjórnsýslu á sviði jafnréttismála 
    Lagt er til að starfsemi stofnana á sviði jafnréttismála (Jafnréttisstofu, Fjölmenningarseturs og réttindagæslu fyrir fatlað fólk) verði sameinuð í eina stofnun sem falin verður stjórnsýsla á sviði jafnréttismála í víðari skilningi, þ.e. á grundvelli meginreglunnar um jafna meðferð óháð kyni, kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð eða kynvitund. (Haust) 
  10. Frumvarp til laga um úrskurðarnefnd velferðarmála
    Í frumvarpinu verður lagt til að átta úrskurðarnefndir á sviði velferðarmála verði sameinaðar í eina nefnd, úrskurðarnefnd velferðarmála, og að hluti nefndarmanna verði í fullu starfi. (Haust)
  11. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46/1980
    Lagðar verða til breytingar á tilteknum ákvæðum laganna sem ekki þykir unnt að bíða með þar til heildarendurskoðun þeirra fer fram, meðal annars í tengslum við vinnslu kolvetnis úr sjó hér við land, aðgerðir gegn einelti á vinnustöðum og vímuefnaprófanir á vinnustöðum. (Vor) 
  12. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um orlof, nr. 30/1987
    Endurskoða þarf lögin um orlof vegna athugasemda frá Eftirlitsstofnun EFTA um innleiðingu Evróputilskipunar 2003/88/EB, um ákveðna þætti er varða skipulag vinnutíma. (Vor) 
  13. Tillaga til þingsályktunar um fjölskyldustefnu
    Fjölskyldustefna ásamt aðgerðaáætlun til ársins 2020. Stefna skal að því að skapa samfélag þar sem góðar uppeldisaðstæður eru fyrir hendi til að tryggja öryggi barna og styrkja fjölskylduna, ekki síst mismunandi gerðir hennar. Lögð verður áhersla á að auka félagslegan jöfnuð og réttindi og tryggja að fjölskyldum sé ekki mismunað á grundvelli kyns, uppruna, fötlunar, trúarbragða eða kynhneigðar. Leitað verður leiða til að tryggja efnahagslegt öryggi fjölskyldunnar og öryggi í húsnæðismálum. Unnið verður að því að tryggja jafnvægi á milli fjölskyldu- og atvinnulífs og að jafna ábyrgð foreldra á heimilishaldi og uppeldi barna. Áhersla verður enn fremur lögð á að tryggja vernd gegn ofbeldi í nánum samböndum og vernd og stuðning vegna ofneyslu áfengis og annarra fíkniefna. Stefnan skal innihalda skýra framtíðarsýn, skýr markmið og skilgreindar aðgerðir í aðgerðaáætlun þar sem fram kemur hver ber ábyrgð á þeim, ásamt tímaáætlun, kostnaðarmati og árangursmælikvörðum. (Vor) 
  14. Tillaga til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda
    Samkvæmt 7. gr. laga um málefni innflytjenda, nr. 116/2012, skal ráðherra leggja fram tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda til fjögurra ára í senn. Þar skal kveðið á um verkefni sem hafa það að markmiði að stuðla að samfélagi þar sem allir einstaklingar geta verið virkir þátttakendur óháð þjóðerni og uppruna. Framkvæmd, ábyrgð og áætlaður kostnaður verkefna skulu tilgreind í áætluninni ásamt því hvernig mati á árangri aðgerða skuli háttað. (Vor) 
  15. Tillaga til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára (2014-2018)
    Samkvæmt 11. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, ber ráðherra að leggja fyrir Alþingi, innan árs frá alþingiskosningum, tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára í senn að fengnum tillögum einstakra ráðuneyta, Jafnréttisstofu og Jafnréttisráðs. Enn fremur skal höfð hliðsjón af umræðum jafnréttisþingsins. Þingsályktun um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum skal fela í sér verkefni sem ætlað er að tryggja jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla í íslensku samfélagi. (Vor)

Fjármála- og efnahagsráðherra

  1. Frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2014 
    (Haust)
  2. Frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2013 
    (Haust)
  3. Frumvarp til lokafjárlaga fyrir árið 2012 
    (Haust)
  4. Frumvarp til laga um tekjuaðgerðir í ríkisfjármálum (bandormur)
    Frumvarpið felur í sér breytingar sem nauðsynlegar eru vegna samþykktar fjárlaga. (Haust)
  5. Frumvarp til laga um ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014 (verðlagsbreytingar o.fl.) (bandormur)
    Frumvarpið felur í sér breytingar sem nauðsynlegar eru vegna samþykktar fjárlaga. (Haust) 
  6. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum (samruni hlutafélaga yfir landamæri) 
    Með frumvarpinu verður lögð til breyting á ákvæði 1. mgr. 51. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, er fjallar um skattlagningu við samruna hlutafélaga. Breytingin verður lögð til í þeim tilgangi að uppfylla skuldbindingar íslenska ríkisins samkvæmt EES samningnum. Samkvæmt íslenskum skattareglum eru íslensk fyrirtæki sem renna saman við önnur fyrirtæki, þvert á landamæri, krafin um greiðslu skatts af öllum hagnaði tengdum eignum og hlutabréfum þegar þau flytja starfsemi sína frá Íslandi jafnvel þó hagnaðurinn hafi aldrei verið innleystur. Á sama tíma hafa íslensk fyrirtæki sem renna saman við önnur fyrirtæki innan Íslands ekki þurft að greiða skatt af slíkum óinnleystum hagnaði. Eftirlitsstofnun EFTA hefur höfðað mál fyrir EFTA dómstólnum á hendur íslenska ríkinu vegna þessa ósamræmda íslenska skattaákvæðis. Frumvarpið verður samið af starfshópi sem skipaður er fulltrúum ráðuneytisins og embættis ríkisskattstjóra. (Haust)
  7. Frumvarp til laga um breytingu á lögum 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs
    Með frumvarpinu verða lagðar til breytingar til leiðréttingar og samræmingar m.a. vegna breytinga á starfsheitum nokkurra heilbrigðisstétta og tilkomu fjölmiðlalaga. (Haust) 
  8. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um stimpilgjald 
    Í frumvarpinu verður lagt til að afnema stimpilgjald af lánsskjölum ásamt því að framkvæmdin á innheimtu gjaldsins verður gerð skilvirkari og álagning einfölduð. Frumvarpið var samið af nefnd sem starfar undir forystu ráðuneytisins. (Haust) 
  9. Frumvarp til laga um breytingu á tollalögum, nr. 88/2005, o.fl. (bandormur)
    Frumvarpið felur í sér breytingar á nokkrum ákvæðum tollalaga, laga um vörugjald og lögum um virðisaukaskatt. Meðal helstu breytinga er að breyta eða afnema greiðslufrest aðflutningsgjalda í núverandi mynd og samræma gjalddaga. Samráð verður haft við tollstjóra og ríkisskattstjóra við samningu frumvarpsins. (Haust) 
  10. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 86/2011, um verslun með áfengi og tóbak 
    Frumvarpið felur í sér breytingar á 11. gr. laganna (velsæmisákvæðið). EFTA dómstólinn sendi frá sér ráðgefandi álit þann 11. desember 2012 (í málinu HOB vín gegn ÁTVR). Í málinu komst dómstóllinn m.a. að þeirri niðurstöðu að 11. gr. laganna feli í sér reglu sem skylt sé að tilkynna til Eftirlitsstofnunar EFTA áður en hún öðlast gildi og einnig að reglan væri að hluta til ósamrýmanleg tilskipun um merkingu matvæla nr. 2000/13/EB. (Haust) 
  11. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt (skattívilnanir vegna hlutabréfakaupa)
    Frumvarpið felur í sér skattafslátt til einstaklinga sem kaupa hlutabréf í litlum fyrirtækjum í vexti. Um er að ræða ríkisstyrkjakerfi sem tilkynna ber og fá samþykkt fyrir frá Eftirlitsstofnun EFTA áður en lög um það taka gildi. (Haust) 
  12. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt (milliverðlagning)
    Frumvarpið felur í sér að teknar verða upp svokallaðar milliverðlagsreglur í íslensk skattalög. Starfshópur með fulltrúum skattyfirvalda hefur unnið áfangaskýrslu um málið og hefur hún verið send til umsagnar til Samtaka iðnaðarins, Samtaka atvinnulífsins, félags löggiltra endurskoðenda, Viðskiptaráðs Íslands, KPMG, PwC, Deloitte og Ernst & Young auk þess sem hún var birt á vef ráðuneytisins til kynningar og athugasemda. (Haust) 
  13. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt
    Frumvarpið felur í sér breytingar til samræmingar og einföldunar. (Vor) 
  14. Frumvarp til laga um opinber fjármál
    Um er að ræða heildarlög um opinber fjármál, þar sem lagðar eru til breytingar er varða stefnumótun um fjármál ríkis og sveitarfélaga, reglur um undirbúning og framkvæmd fjárlaga, ásamt því að reglur um reikningshald eru færðar nær því sem þekkist erlendis. Frumvarpið er nú í umsagnarferli og hefur verið unnið í samráði við fulltúa hagsmunaaðila, stofnana og Alþingis. (Haust) 
  15. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, nr. 1/1997
    Með frumvarpinu verða lagðar til breytingar sem endurspegla eiga niðurstöður viðræðna opinberra launagreiðenda og opinberra starfsmanna um breytingar á fyrirkomulagi lífeyrismála. (Vor) 
  16. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um kjararáð, nr. 47/2006
    Með frumvarpinu verða lagðar til þær breytingar á ákvörðun um laun og starfskjör forstöðumanna hlutafélaga og annars konar félaga sem eru að meiri hluta í eigu ríkisins, að skrifstofustjórar í Stjórnarráðinu verði ekki lengur taldir upp í 1. gr. laganna auk þess sem ráðinu verði heimilað að ráða skrifstofustjóra. Frumvarpið var lagt fram á 140. löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga. (Haust) 
  17. Frumvarp til laga um Fjármálastöðugleikaráð
    Tilgangur frumvarpsins er að efla og varðveita fjármálastöðugleika í almannaþágu með því að fela sérstöku ráði, fjármálastöðugleikaráði, skilgreind verkefni og heimildir. Ráðinu er ætlað að vera vettvangur samráðs, upplýsingaskipta og stefnumótunar vegna fjármálastöðugleika og samhæfingar viðbúnaðar við fjármálakreppu. Drög að frumvarpinu eru nú í umsagnarferli. (Haust) 
  18. Frumvarp til laga um skipan opinberra framkvæmda og fasteignir ríkisins
    Með frumvarpinu verður lögð til ný skipan fasteigna- og framkvæmdamála ríkisins. Nefndarvinna fer fram í ráðuneytinu í samvinnu við aðila frá fasteigna- og framkvæmdastofnunum ráðuneytisins. (Vor)
  19. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um opinber innkaup, nr. 84/2007 
    Með frumvarpinu verða lagðar til breytingar á lögum um opinber innkaup til að tryggja innleiðingu á tilskipun um samræmingu reglna um útboð á verksamningum, vörusamningum og þjónustusamningum á sviði varnar- og öryggismála. Þær breytingar sem frumvarpinu er ætlað að tryggja er að við innkaup á varnar- og öryggisbúnaði sé byggt á hagkvæmu innkaupaferli (útboði) en á sama tíma sé upplýsinga- og afhendingaröryggi til staðar. Frumvarpið verður samið að höfðu samráði við Ríkiskaup, innanríkisráðuneytið, Landhelgisgæsluna og RLS. (Haust) 
  20. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 42/1983, um Landsvirkjun
    Með frumvarpinu yrði leitað eftir formlegri lagaheimild til handa Landsvirkjun til sameiningar við hlutafélagið Þeistareyki. Ekki er að finna neinar heimildir til handa sameignarfélagi til að sameinast hlutafélagi í núgildandi lögum. Frumvarpið verður samið að höfðu samráði við Landsvirkjun. (Haust)
  21. Frumvarp til laga um ríkisaðstoð
    Fyrir dyrum stendur að taka upp í EES-samninginn og samninginn um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstól ákvæði um breytingar á valdheimildum ESA þegar kemur að eftirliti með ríkisaðstoð. Samhljóða breytingar tóku gildi innan ESB í ágúst 2013, að því er varðar valdheimildir framkvæmdastjórnar ESB. Með frumvarpinu verða lögð til ákvæði um heimildir ESA vegna slíks eftirlits, m.a. um sektir og samstarf við innlenda dómstóla. Um er að ræða ákvæði sambærileg þeim sem nú er að finna í 24., 27. og 28. gr. samkeppnislaga, nr. 44/2005, og eiga við um almennt samkeppniseftirlit ESA. Jafnframt er gert ráð fyrir að með frumvarpinu verði lagt til að ákvæði sem nú er að finna í samkeppnislögum, um afturköllun ríkisaðstoðar, verði færð yfir í lög um ríkisaðstoð. Hliðsjón verður höfð af norskum lögum um sama efni. Frumvarpið verður samið að höfðu samráði við atvinnuvegaráðuneytið vegna þeirra ákvæða sem lagt verður til að muni falla á brott úr samkeppnislögum. (Vor) 
  22. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða (fjárfestingarheimildir, starfsendurhæfing o.fl.)
    Með frumvarpinu verður lagt til að bakábyrgðarsjóðum verði heimilt, óháð takmörkunum 36. gr. laganna, að eiga skuldabréf sem eru gefin út af launagreiðendum til uppgjörs á skuldbindingum þeirra við sjóðina. Þá verður lagt til að tímabundin heimild lífeyrissjóðs til þess að eiga allt að 20% í samlagshlutafélögum verði framlengd til loka árs 2014. Enn fremur verður lagt til að lífeyrissjóðum verði heimilt að setja þátttöku sjóðfélaga í endurhæfingu sem skilyrði fyrir greiðslu örorkulífeyris. Ákvæðin voru lögð fram á 142. löggjafarþingi en náðu ekki fram að ganga. (Haust) 
  23. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða
    Með frumvarpinu verða lagðar til breytingar á 55. gr. laganna, þ.e. breytingar á viðurlagaákvæðum laganna. Frumvarpið verður samið af nefnd undir forystu ráðuneytisins sem í eiga sæti fulltrúar frá Fjármálaeftirlitinu, ríkissaksóknara og innanríkisráðuneyti. (Vor) 
  24. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001
    Starfshópi verður falið á haustdögum að meta hvort endurskoða beri lögin um vexti og verðtryggingu, sérstaklega ákvæði laganna um bann við gengistryggingu, sbr. álit ESA um það atriði. Vinnan skal taka mið af skýrslu Seðlabanka Íslands til efnahags- og viðskiptaráðherra frá ágúst 2012, „Varúðarreglur eftir fjármagnshöft“. (Vor) 
  25. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi
    Árlegt frumvarp vegna breytinga á álagningarstofnum eftirlitsgjalda. (Haust) 
  26. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 56/2010, um vátryggingastarfsemi, og lögum nr. 32/2005, um miðlun vátrygginga
    Með frumvarpinu er brugðist við athugasemdum ESA við innleiðingu á tilskipunum 2002/92/EB, 2001/17/EB og ábendingum Fjármálaeftirlitsins um atriði sem skýra mætti betur. Helstu ákvæði frumvarpsins fjalla um rýmkun heimilda til endurtrygginga frumáhættu, heimildir til að bjóða lögboðnar vátryggingar, ítarlegri upplýsingar í tilkynningum til vátryggingaskrár, þátttöku stjórnarmanna í meðferð eigin mála, endurskipulagningu og slit vátryggingafélags, upplýsingagjöf við umsókn um starfsleyfi til miðlunar vátrygginga og upplýsingaskipti við önnur eftirlitsstjórnvöld ef vátryggingamiðlari gerist brotlegur við lög. Frumvarpið var lagt fram á 141. löggjafarþingi, en hlaut ekki afgreiðslu. (Haust) 
  27. Frumvarp til laga um breytingu á lögum 56/2010, um vátryggingastarfsemi
    Frumvarpið er til innleiðingar á annarri gjaldþolstilskipun ESB (Solvency II). Þrjár meginbreytingar eru settar fram í tilskipuninni sem eiga að miða að heilbrigðari og traustari rekstri vátryggingafyrirtæja, reglur um viðeigandi fjárhagsgrundvöll, stjórnarhætti, eftirlitsferli og opinbera upplýsingagjöf. Sérfræðingar FME leiða starf nefndar þeirrar sem vinnur við frumvarpið. Veruleg líkindi eru til þess að innleiðing tilskipunarinnar kalli á slíkar breytingar á gildandi lögum að um ný heildarlög verði að ræða. Innleiðingarfrestur tilskipunarinnar hefur verið færður til og kann framlagning frumvarpsins að raskast af þeim sökum. (Vor) 
  28. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 30/2004, um vátryggingarsamninga
    Skipaður hefur verið starfshópur sem skoða skal ákvæði danskra og norska laga í því skyni að meta hvort auðvelda megi viðskiptamönnum vátryggingafélaga að segja upp vátryggingarsamningi (customer mobility) á samningstímanum, en slíka athugun hafa íslensk stjórnvöld samþykkt að ráðast í vegna niðurstöðu ESA í rannsókn stofnunarinnar á mögulegri ríkisaðstoð í tengslum við endurreisn Sjóvár. Verði niðurstaða starfshópsins sú að rétt sé að ráðast í slíka breytingu verður hópnum falið að semja frumvarp þar að lútandi. (Vor) 
  29. Frumvarp til laga um lánshæfismatsfyrirtæki
    Innleiðing á reglugerð 1060/2010. Í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1060/2009 eru settar reglur sem eiga að tryggja að öll lánshæfismöt sem gefin eru út af matsfyrirtækjum sem eru skráð innan Evrópusambandsins séu af sambærilegum gæðum og unnin af matsfyrirtækjum sem lúta ströngustu reglum. Meginmarkmið reglugerðarinnar er að tryggja stöðugleika fjármálamarkaða og fjárfesta. Stjórnskipulegum fyrirvara hefur verið aflétt og innleiðingarferli er því hafið. (Haust) 
  30. Frumvarp til laga um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fjárfesta
    Verið er að leggja lokahönd á frumvarpsdrög um ný heildarlög um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta. Drögin byggja á frumvarpi sem lagt var fram á 140. löggjafarþingi og breytingum sem gerðar voru á gildandi lögum, nr. 98/1999, á sama löggjafarþingi. Í frumvarpinu er ennfremur brugðist við ábendingum um óskýrleika varðandi aðkomu tiltekinna verðbréfasjóða að tryggingakerfinu og óvissu um greiðslu iðgjalda þeirra. (Haust) 
  31. Frumvarp til laga um veðlán í íbúðarhúsnæði
    Unnið er að gerð sérlaga um veðlán sem veitt eru einstaklingum vegna kaupa á íbúðarhúsnæði. Málið er umfangsmikið og snýr að umbótum varðandi lánveitingar vegna íbúðarhúsnæðis. Í upphaflegum áætlunum var miðað við að lagt yrði fram frumvarp árið 2013, en ljóst er að af því verður ekki. Málið þarfnast skoðunar í stærra samhengi og þá sem hluta af stefnumörkun í húsnæðismálum sem nú er til skoðunar. Við vinnslu frumvarpsins hefur verið höfð hliðsjón af drögum framkvæmdastjórnar Evrópusambandins að nýrri tilskipun um húsnæðisveðlán, tillögum G3 um veðlán vegna húsnæðisviðskipta og tilmælum Alþjóðafjármálastöðugleikaráðsins um sama efni. Náðst hefur samkomulag á milli framkvæmdastjórnar ESB og Evrópuþingsins um meginatriði tilskipunar. Samkvæmt frumvarpsdrögunum verður þeim sem veita lán með veði í íbúðarhúsnæði gert að afla sér sérstaks starfsleyfis Fjármálaeftirlitsins, hertar verða kröfur um innri eftirlitsferla við lánveitingar, ábyrgð lánveitenda verður aukin, sett verða hámörk á lánshlutföll og væntanlegu fjármálastöðugleikaráði veitt heimild til að fyrirskipa lækkun lánshlutfalla ef teikn eru á lofti um bólumyndun á íbúðahúsnæðismarkaði. (Vor) 
  32. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002 (útibú)
    Frumvarpið felur í sér breytingar á reglum um starfsemi útibúa fjármálafyrirtækja. Hluti frumvarpsins varðar breytingar á lögum í samræmi við nýtt bankaregluverk Evrópusambandsins (CRD IV/CRR). Frumvarpið verður samið að höfðu samráði við FME og SFF. (Haust) 
  33. Frumvörp til laga um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002 (CRD IV/CRR)
    Í nóvember 2012 skipaði atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra starfshóp til þess að vinna að innleiðingu nýrra reglna Evrópusambandsins, tilskipun (CRD IV.) og reglugerð (CRR), um starfsemi fjármálafyrirtækja og eftirlit með þeim, sem byggja á svokölluðu Basel III samkomulagi. Í starfshópnum eru fulltrúar helstu hagsmunaaðila. Um er að ræða viðamikið regluverk sem snýr að flestum grunnþáttum í starfsemi fjármálafyrirtækja og eftirliti með þeim. Regluverkið tók gildi innan ESB 17. júlí 2013 en innleiðingarfrestur í Evrópusambandinu er til áramóta. Auk þess hafa Svisslendingar lögleitt Basel-III regluverkið og Norðmenn vinna að upptöku þess þrátt fyrir að CRD IV / CRR hafi enn ekki verið tekið upp í EES-samninginn. Stefnt er að því að leggja fram þrjú lagafrumvörp til breytinga á lögum um fjármálafyrirtæki. Fyrsta frumvarpið felur í sér rúmlega 50 breytingar á lögunum. Er þar um að ræða breytingar á reglum um starfsleyfi, stofnun og starfsemi fjármálafyrirtækja, virka eignarhluti, stjórn og starfsmenn, áhættuþætti og eigið fé. Annað frumvarpið varðar helst nýjar reglur um svonefnda „eiginfjárpúða“ (e. Capital Conservation Buffer og Countercyclical Capital Buffer), reglur um „kerfislega mikilvæg fjármálafyrirtæki“ (e. Sifi´s) og refsiákvæði. Gert er ráð fyrir að það frumvarp verði lagt fram í janúar eða febrúar 2014. Þriðja frumvarpið varðar nýjar reglur sem er að finna í CRR reglugerðinni um stórar áhættur, eiginfjárliði, verðbréfun o.fl. (Vor) 
  34. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002 (skilameðferð o.fl.)
    Nefnd var sett á fót til að vinna úr niðurstöðum G3 skýrslunnar svokölluðu. Henni er ætlað að fjalla um slita- og skilameðferð fjármálafyrirtækja, breytingar á regluverki varðandi eigið fé, millibankaviðskipti og hvort unnt sé að auka virkni hinnar sérstöku skuldbindingaskrár sem samkvæmt gildandi ákvæðum er fyrst og fremst hugsuð sem eftirlitstæki til að fylgjast með stórum áhættuskuldbindingum. Þá er nefndinni falið að gera tillögur um hvernig standa eigi að innleiðingu tilskipunar ESB um skilameðferð fjármálafyrirtækja. (Vor) 
  35. Frumvarp til laga um náttúruhamfaratryggingar og brunatryggingar
    Nefnd er að störfum um endurskoðun á lagaumhverfi náttúruhamfaratrygginga. Í nefndinni sitja, auk fulltrúa ráðuneytisins, fulltrúar frá SFF, FME, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Viðlagatryggingu Íslands og Húseigendafélaginu. Nefndinni er ætlað að fara yfir lagaumhverfi viðlagatryggingar/náttúruhamfaratryggingar og aðlaga það þeim breytingum sem gerðar hafa verið á lögum um vátryggingarsamninga og lögum um vátryggingastarfsemi. Starfið tengist einnig vinnu á vegum forsætisráðuneytisins um tjón sem ekki fást bætt úr tryggingakerfinu. (Vor) 
  36. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um greiðsluþjónustu og lögum um greiðslur yfir landamæri í evrum
    Í frumvarpinu eru annars vegar lagðar til breytingar á ákvæðum laga nr. 120/2011 um greiðsluþjónustu til að skerpa á hugtakanotkun og til að skýra betur þær kröfur sem gerðar eru til útreiknings eigin fjár. Hins vegar eru lagðar til breytingar á lögum nr. 146/2002 um greiðslur yfir landamæri í evrum með það að markmiði að innleiða reglugerðir Evrópuþingsins og ráðsins nr. 924/2009 um greiðslur yfir landamæri og nr. 260/2012 um tækni- og viðskiptalegar kröfur fyrir millifærslur fjármuna og beingreiðslna í evrum. Reglugerðirnar leysa af hólmi eldri reglugerð á sama sviði, nr. 2560/2001, sem innleidd var með lögum nr. 146/2004. Frumvarpið verður samið að höfðu samráði við FME, SFF og SÍ. (Haust) 
  37. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007
    Með frumvarpinu verða lagðar til breytingar á lögum um verðbréfaviðskipti vegna athugasemda sem borist hafa frá ESA við innleiðingu „MIFID“-tilskipunarinnar. Að mestu leyti hefur verið leyst úr athugasemdum ESA. Eftir standa m.a. atriði er varða undanþágu frá upplýsingagjöf útgefanda þegar um er að ræða viðskipti með verðbréf á markaðstorgi fjármálagerninga og skyldur aðila vegna viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði. Frumvarpið verður samið að höfðu samráði við FME og OMXNasdaq (Kauphöllina). (Haust) 
  38. Frumvarp til laga um fagfjárfestasjóði 
    Nýverið var skipuð nefnd sérfræðinga sem vinna á frumvarp til laga um fagfjárfestasjóði byggða á efnisreglum tilskipunar ESB um fagfjárfestasjóði nr. 2011/61 (AIFMD). Með tilskipuninni er í fyrsta sinn sett heildarumgjörð utan um rekstrarfélög fagfjárfestasjóða. Tilskipunin hefur ekki enn verið tekin upp í EES-samninginn en með hliðsjón af auknum umsvifum slíkra sjóða hér á landi og sökum þess að regluverki er ábótavant er það mat ráðuneytisins að setja þurfi sérstök heildarlög um starfsemi þeirra og jafnframt að fella þá brott kaflann um fagfjárfestasjóði í núverandi lögum, nr. 128/2011. Frumvarpið verður samið að höfðu samráði við FME og SFF. (Haust)

Heilbrigðisráðherra

  1. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um geislavarnir, nr. 44/2002
    Aðlögun að breytingum á alþjóðavettvangi, m.a. nýjum ráðleggingum frá Alþjóða geislavarnaráðinu, nýjum öryggisstöðlum Alþjóða kjarnorkumálastofnunarinnar og breytingum á löggjöf ESB. Aukin áhersla á geislavarnir sjúklinga og viðbúnað vegna geislavár og að umfang og tíðni eftirlits endurspegli áhættu vegna notkunar. Endurflutt. (Haust) 
  2. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um sjúkraskrár, nr. 55/2009
    Markmið frumvarpsins er að taka af allan vafa um rétt borgarans til að bera synjun um aðgang að eigin sjúkraskrá eða sjúkraskrá látins aðstandanda, undir embætti landlæknis. Jafnframt er lagt til að heimild til að kæra synjun til ráðherra verði felld brott. Loks er lagt til að bætt verði við ákvæði um nauðsynlegan aðgang tæknimanna að sjúkraskrárkerfum. Endurflutt. (Haust) 
  3. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um lækningatæki, nr. 16/2001
    Lagt er til að innflytjendum lækningatækja verði gert skylt að skrá vöruna hjá Lyfjastofnun. Jafnframt verði Lyfjastofnun gert skylt að halda skrá yfir þá aðila og þau lækningatæki sem um ræðir. Endurflutt nokkuð breytt. (Haust) 
  4. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007
    Reglugerðarheimild vegna innleiðingar á tilskipun 2010/53/ESB um gæði og öryggi við líffæragjafir. Kröfur sem gerðar eru í tilskipuninni eru ekki meiri en íslensk heilbrigðisyfirvöld gera. Innleiðing. (Haust)
  5. Frumvarp til laga um vísindarannsóknir á heilbrigðissviði 
    Markmið frumvarpsins er að setja skýrar reglur um vísindarannsóknir á heilbrigðissviði og stuðla þannig að vönduðum vísindarannsóknum og tryggja hagsmuni þátttakenda. Frumvarpið er jafnframt hluti af undirbúningi fullgildingar viðbótarbókunar með sáttmála Evrópuráðsins um mannréttindi og líflæknisfræði (Oviedo sáttmálinn). Endurflutt (Haust) 
  6. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um lífsýnasöfn, nr. 110/2000
    Í breytingum á lögum um lífsýnasöfn verður kveðið á um söfn heilbrigðisupplýsinga þar sem varðveittar verði heilbrigðisupplýsingar sem aflað var til vísindarannsókna eða urðu til við framkvæmd hennar. Opinberum heilbrigðisstofnunum verði heimilt að starfrækja leitargrunn til að kanna fýsileika vísindarannsóknar að fengnu leyfi ráðherra. Lagt fram samhliða frumvarpi til laga um vísindarannsóknir á heilbrigðissviði. Endurflutt. (Haust) 
  7. Frumvarp til laga um breytingu á lyfjalögum, nr. 93/1994
    Breytingar sem gera þarf á ákvæðum laganna um samhliða innflutning lyfja vegna athugasemda Eftirlitsstofnunar EFTA. Efnislegar breytingar verða litlar sem engar. (Haust) 
  8. Frumvarp til laga um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni
    Með þingsályktun sem samþykkt var á 140. löggjafarþingi var velferðarráðherra falið að skipa starfshóp til að undirbúa frumvarp til laga sem heimili staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. Í frumvarpinu verður lögð áhersla á að tryggja hag og réttindi barnsins, sjálfræði og velferð staðgöngumóður og fjölskyldu hennar og farsæla aðkomu verðandi foreldra. Lögð verður áhersla á traustan lagaramma, ströng skilyrði og skýrar verklagsreglur um framkvæmd og um eftirlit með staðgöngumæðrun. (Vor) 
  9. Frumvarp til laga um breytingu á lögum sjúkratryggingar, nr. 112/2008, vegna innleiðingar tilskipunar 2011/24 um heilbrigðisþjónustu yfir landamæri
    Innleiðing tilskipunar Evrópusambandsins 2011/24/ESB um rétt sjúklinga til að leita sér heilbrigðisþjónustu yfir landamæri felur m.a. í sér að ráðuneytið þarf að yfirfara og aðlaga íslenska löggjöf, reglugerðir og verklag að tilskipuninni. Tilgangurinn er einkum að greiða fyrir aðgengi að öruggri hágæða heilbrigðisþjónustu yfir landamæri og stuðla að samvinnu í heilbrigðisþjónustu á milli aðildarríkja. Tilskipunin er lögfesting á ýmsum réttindum sem hafa verið viðurkennd í dómum Evrópudómstólsins. (Vor) 
  10. Frumvarp til laga um breytingu á lyfjalögum, nr. 93/1994
    Breytingar vegna innleiðingar á tilskipun Evrópuþingsins og Ráðsins 2010/84/ESB og reglugerðar (ESB) nr. 1235/2010 (lyfjagát). Hér er um að ræða samevrópskar reglur um eftirlit með aukaverkunum lyfja og felur tilskipunin í sér veigamiklar breytingar. Innleiðing. (Vor)  
  11. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 6/2002, um tóbaksvarnir, og breytingu á lögum nr. 86/2011, um verslun með áfengi og tóbak
    Í frumvarpinu er lagt til að banna tóbaksvörur sem sérstaklega er beint að ungu fólki, skerpa markmiðsákvæði tóbaksvarnalaga, fella brott einstakar undanþágur og banna alla tóbaksneyslu í framhaldsskólum. Þá verði sett ákvæði um vöruval tóbaks sambærilegt núgildandi ákvæði um vöruval áfengis. Þar er lagt til að ÁTVR fái lagaheimild til að hafna tilteknum tóbaksvörum svo að hægt verði að framfylgja með virkum hætti áherslum stjórnvalda í tóbaksmálum. Endurflutt. (Vor) 
  12. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um sjúkratryggingar, nr. 112/2008
    Skipuð hefur verið nefnd til að undirbúa tillögur um að fella læknis-, lyfja-, rannsóknar-, sjúkraþjálfunar- og annan heilbrigðiskostnað undir eitt niðurgreiðslu- og afsláttar-fyrirkomulag þannig að þátttaka borgarans í heilbrigðiskostnaði verði takmörkuð hvort sem kostnaðurinn fellur til utan eða innan heilbrigðisstofnana og hver sem þörf hans er fyrir heilbrigðisþjónustu. (Vor) 
  13. Tillaga til þingsályktunar um heilbrigðisáætlun til ársins 2020
    Tillaga til þingsályktunar um heilbrigðisáætlun til ársins 2020 sem ætlað var að leysa af hólmi heilbrigðisáætlun til ársins 2010, var lögð fram á síðasta þingi en ekki afgreidd. Við undirbúning tillögunnar var haft náið samráð við fjölmarga hagsmunaaðila og notendur þjónustunnar. Í tillögunni var leitast við að móta skýra framtíðarsýn í heilbrigðismálum þjóðarinnar. Þar var m.a. gerð grein fyrir aðgerðum sem ætlað er að bæta almennt heilsufar þjóðarinnar og tryggja að íbúar landsins búi við sem jafnastan kost í heilsufarslegum efnum. (Vor)

Iðnaðar- og viðskiptaráðherra

  1. Frumvarp til laga um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri 
    Fjárfestingavaktin hefur skilað ráðherra skýrslu með tillögum um úrbætur á samkeppnishæfni Íslands varðandi beina erlenda fjárfestingu og eflingu markaðs- og kynningarstarfs í því skyni. Er þar m.a. lagt til að lög nr. 34/1991 verði endurskoðuð í heild sinni. Þá leggur vaktin sérstaklega til að ákvæði um tilkynningarskyldu vegna erlendrar fjárfestingar verði afnumið. Að sama skapi hefur ESA sent ráðuneytinu formlega tilkynningu um að ESA telji tilkynningarskylduna brjóta í bága við EES-samninginn. (Vor) 
  2. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 99/2010, um ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi
    Lög nr. 99/2010 falla úr gildi í lok árs 2013. Í kjölfar skýrslu og tillagna Fjárfestingarvaktarinnar frá júní 2013 verður unnið að gerð nýs frumvarps um ívilnanir vegna nýfjárfestinga. Náið samráð verður haft við fjármálaráðuneytið, ESA og Íslandsstofu. Á haustþingi verður lagt fram frumvarp um framlengingu laga nr. 99/2010 til 1. júlí 2014. (Haust) 
  3. Frumvarp til laga um gjaldtöku í ferðaþjónustu
    Á vegum iðnaðar- og viðskiptaráðherra er unnið að úttekt á leiðum til að innheimta gjald í ferðaþjónustu til að standa straum af kostnaði við uppbyggingu ferðamannastaða. Líklegt er að niðurstaða þeirrar vinnu kalli á nýja löggjöf. (Vor) 
  4. Frumvarp til laga um ríkisolíufélag
    Felur í sér stofnun ríkisolíufélags til gæslu íslenskra hagsmuna. Unnið í samráði við fjármála- og efnahagsráðuneytið og Orkustofnun. (Vor) 
  5. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um verslunarskrá, firmu og prókúruumboð, lögum um sameignarfélög og lögum um fyrirtækjaskrá
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar sem miða að því að flytja firmaskrá frá sýslumönnum til fyrirtækjaskrár. Um er að ræða breytingar á lögum nr. 42/1903, um verslunarskrár, firmu og prókúruumboð, lögum nr. 50/2007, um sameignarfélög, og lögum nr. 17/2003, um fyrirtækjaskrá. Umræddar breytingar eru til þess fallnar að einfalda framkvæmd og samræma reglur um skráningu tiltekinna félaga, sem og að bæta þjónustu opinberra aðila við atvinnulífið. Þá er mikið hagræði í því fólgið að skráning alls atvinnureksturs sé á einni hendi. (Haust) 
  6. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um hlutafélög, lögum um einkahlutafélög og lögum um ársreikninga
    Markmiðið með frumvarpinu er að tryggja tímanleg skil ársreikninga. (Vor)
  7. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um bílaleigur
    Settur hefur verið á fót starfshópur sem ætlað er að endurskoða regluverkið í kringum bílaleigur, þ. á m. lög nr. 64/2000, um bílaleigur. Bílaleigum hefur fjölgað mjög hratt undanfarið í takt við aukinn fjölda ferðamanna en mikilvægt er að lagaumgjörðin endurspegli þá þróun. (Vor) 
  8. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald
    Til skoðunar er að semja frumvarp til breytinga á lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, nr. 85/2007. Meðal þeirra atriða sem þarfnast endurskoðunar eru gjaldtaka vegna rekstrarleyfa o.fl. (Vor) 
  9. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 139/2001, um stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur
    Frumvarpið kveður á um uppskiptingu á sérleyfisstarfsemi Orkuveitu Reykjavíkur og annarri starfsemi sem fyrirhuguð er um áramót. Er það í samræmi við 14. gr. raforkulaga um aðgreiningu samkeppnis- og sérleyfisþátta í rekstri orkufyrirtækja. (Haust) 
  10. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um endurskoðendur
    Frumvarpið er lagt fram í kjölfar skýrslu nefndar um málefni endurskoðenda sem unnin var veturinn  2010-2011, auk þess eru lagðar til breytingar í ljósi reynslu og framkvæmdar laganna síðustu misseri. Einnig eru fyrirhugaðar breytingar á sviði endurskoðunar á vettvangi Evrópusambandsins og Ísland hefur skuldbundið sig til að fylgja með EES-samningnum. Með frumvarpinu eru einnig lagðar til breytingar á refsiákvæðum laganna. (Vor) 
  11. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um rafrænar undirskriftir
    Frumvarpið felur í sér breytingar vegna innleiðingar á ákvörðunum framkvæmdastjórnarinnar er varða rafrænar undirskriftir í tengslum við þjónustutilskipunina sem og breytingar vegna ábendinga Neytendastofu sem annast eftirlit með vottunaraðilum. (Vor) 
  12. Frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum, nr. 65/2003
    Með frumvarpinu er lögð til breyting á raforkulögum sem felur í sér innleiðingu á þriðju raforkutilskipun ESB (2009/72/EB). (Vor) 
  13. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 30/2008, um upprunaábyrgð á raforku sem framleidd er með endurnýjanlegum orkugjöfum
    Samkvæmt lögum nr. 30/2008 hefur Orkustofnun ákveðnum lögbundnum hlutverkum að gegna í tengslum við útgáfu upprunaábyrgða á raforku sem framleidd er með endurnýjanlegum orkugjöfum o.fl. Því fylgir ákveðinn kostnaður fyrir Orkustofnun og í stað þess að velta þeim kostnaði yfir á skattgreiðendur í formi framlaga á fjárlögum, er með frumvarpinu gert ráð fyrir að Orkustofnun fái heimild til að innheimta þann kostnað sem fellur til hjá stofnuninni af þeim aðilum sem selja upprunaábyrgðir. (Vor) 
  14. Frumvarp til laga um sölu fasteigna og skipa
    Frumvarpinu er ætlað að koma í stað núgildandi laga um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa, nr. 99/2004. Tilgangur frumvarpsins er að leggja grundvöll að því að viðskipti með fasteignir og skip, sem gerð eru með aðstoð fasteignasala, geti farið fram með greiðum og öruggum hætti fyrir kaupanda og seljanda og réttarstaða aðila sé glögg. Jafnframt að hlutverk fasteignasala og ábyrgð þeirra sé skýr og þeir séu engum háðir í störfum sínum. (Haust) 
  15. Frumvarp til laga um almannaheillasamtök
    Nefnd er að störfum sem ætlað er að skila til ráðherra tillögum að frumvarpi sem yrði heildarlöggjöf um þau frjálsu félagasamtök sem talist geta almannaheillasamtök, til að skjóta traustari stoðum undir starfsemi þeirra. (Vor) 
  16. Frumvarp til laga um breytingu á innheimtulögum
    Með frumvarpinu verða lagðar til ýmsar smærri breytingar á innheimtulögum m.a. vegna ábendinga FME sem hefur eftirlit með þeim aðilum sem hafa innheimtuleyfi. (Vor) 
  17. Frumvarp til laga um innleiðingu á tilskipun um greiðsludrátt í verslunarviðskiptum
    Um er að ræða endurútgáfu á tilskipun 2001/35/EB með sama heiti, auk nokkurra nýmæla. Tilgangur tilskipunarinnar er að vinna gegn of löngum greiðslufresti og/eða greiðsludrætti í verslunarviðskiptum. Tilskipunin tekur til greiðslna í verslunarviðskiptum milli fyrirtækja eða milli fyrirtækja og opinberra aðila. Helstu nýmæli tilskipunarinnar felast í því að fyrirtæki skuli greiða reikninga innan 60 daga, nema sérstaklega sé samið um annað og ef slíkt er ekki bersýnilega ósanngjarnt. Við kaup opinberra aðila á vörum og þjónustu skuli greitt innan 30 daga og aðeins í undantekningartilvikum verði fresturinn 60 dagar. Gert er ráð fyrir að fyrirtæki skuli almennt eiga rétt á vöxtum vegna greiðsludráttar og geti enn fremur krafið um innheimtukostnað. Þá er kveðið á um lágmarksálag vegna álagningar vanefndaálags (dráttarvaxta). (Haust) 
  18. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um faggildingu
    Með frumvarpinu verða innleidd faggildingarákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 765/2008 frá 9. júlí 2008 um kröfur varðandi faggildingu og markaðseftirlit í tengslum við markaðssetningu á vörum og um niðurfellingu reglugerðar (EBE) nr. 339/93. (Haust) 
  19. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 42/2009, um visthönnun vöru sem notar orku
    Með frumvarpinu er lögð til breyting á lögunum sem felur í sér innleiðingu á tilskipun ESB nr. 2009/125/EB um visthönnun vöru. Tilgangurinn er að stuðla að því að hönnun á vörum sem tengjast orkunotkun verði með þeim hætti að viðkomandi vara nýti orkuna sem best. Einnig er með frumvarpinu nánar kveðið á um markaðseftirlit Neytendastofu og valdheimildir. (Haust) 
  20. Frumvarp til laga um breytingu á iðnaðarlögum, nr. 42/1978
    Frumvarp samið með hliðsjón af niðurstöðum nefndar um endurskoðun iðnaðarlaga, en nefndin skilaði skýrslu í febrúar 2012. (Vor) 
  21. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 72/1994, um merkingar og upplýsingaskyldu varðandi orkunotkun heimilistækja o.fl. 
    Frumvarpið felur í sér innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2010/30/ESB, en hún kveður á um merkingar og upplýsingaskyldu varðandi orkunotkun vöru sem sett er á markað. (Vor)
  22. Frumvarp til laga um hitaveitur
    Með frumvarpinu er lagt til að ákvæði um hitaveitur verði sameinuð í ein heildarlög um hitaveitur. Markmið laganna er að setja hitaveitum skýrari starfsramma, skilgreina réttindi og skyldur þeirra betur og gæta að neytendavernd í því sambandi. (Vor)
  23. Tillaga til þingsályktunar um nýsköpunar- og atvinnustefnu
    Sett er fram heildstæð sýn um hvernig ná megi fram öflugra og fjölbreyttara atvinnulífi sem leitt geti til efnahagslegra framfara. Byggt er á víðtæku samráði við hagsmunaaðila; stjórnendur fyrirtækja, aðila vinnumarkaðarins, forystumenn háskólarannsókna og þá sem leiða nýsköpun atvinnulífsins. Stefnumótunin afmarkast af tillögum um aðgerðir stjórnvalda til að hafa áhrif á uppbyggingu og þróun atvinnugreina sem ætlað er að skila ábata fyrir hagkerfið í heild. (Vor)
  24. Skýrsla ráðgjafarhóps um raforkustreng til Evrópu 
    Skýrsla ráðgjafarhóps frá júní 2013 lögð fram til umræðu á Alþingi í október (Haust) 
  25. Skýrsla nefndar um raflínur í jörð
    Skýrsla nefndar frá febrúar 2013 lögð fram til umræðu á Alþingi í október (Haust) 
  26. Raforkuskýrsla
    Samkvæmt 39. gr. raforkulaga leggur ráðherra fyrir Alþingi á tveggja ára fresti skýrslu um raforkumálefni. Nákvæm tímasetning framlagningar (haustþing eða vorþing) liggur ekki fyrir. (Haust)

Innanríkisráðherra

  1. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ákvæðum um lágmarksútsvar og heimild til lækkunar/niðurfellingar fasteignagjalda hjá elli- og örorkulífeyrisþegum. (Vor) 
  2. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um útlendinga, nr. 96/2002
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um útlendinga vegna innleiðingar á tilskipunum EES, til að hraða málsmeðferð og að koma á fót sjálfstæðri úrskurðarnefnd í málefnum útlendinga. (Haust) 
  3. Frumvarp til laga um breytingu á lögreglulögum, nr. 90/1996
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á skipulagi og fjölda lögregluembætta, aðskilnaði embætta lögreglustjóra og sýslumanna auk þess sem sett eru skýr skilyrði um hæfi lögreglumanna. (Haust) 
  4. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um framkvæmdarvald ríkisins í héraði, nr. 92/1989
    Með frumvarpinu verður lögð til breyting á stjórnsýsluumdæmum sýslumannaembætta í landinu þannig að þau verði 8 í stað 24. Markmið frumvarpsins er að fækka embættum og stækka þau og efla um leið stjórnsýslu ríkis í héraði. (Haust) 
  5. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008
    Með frumvarpinu er framlengdur frestur á að ákvæði um embætti héraðssaksóknara taki gildi. Þar er einnig lagt til að allar skýrslutökur af börnum fari fram í Barnahúsi. (Haust) 
  6. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um hafnir, nr. 61/2003
    Með frumvarpi til laga um breytingu á hafnalögum, nr. 61/2003, er stefnt að því að gera hafnarsjóði fjárhagslega sjálfbæra. Byggir frumvarpið á niðurstöðu nefndar um fjárhagsvanda hafna en hún taldi brýnt að endurskoða grunnforsendur hafnalaga og styrkja fjárhagsgrundvöll hafna, breyta fyrirkomulagi gjaldheimtu hafna sem og þeirri aðferðarfræði sem hafnalög mæla fyrir um hvað viðkemur styrkjum úr ríkissjóði til hafnaframkvæmda. (Haust) 
  7. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um Neytendastofu og talsmann neytenda, nr. 62/2005
    Með frumvarpinu eru verkefni embættis talsmanns neytenda og Neytendastofu sameinuð. (Haust) 
  8. Frumvarp til laga um Rauða kross Íslands
    Frumvarpið eru nýmæli með það að markmiði að viðurkenna Rauða krossinn á Íslandi með formlegum hætti og vernda alþjóðlegt merki hans. (Vor) 
  9. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um fólksflutninga og farmflutninga á landi, nr. 73/2001
    Með frumvarpinu verður settur skýr rammi um farmflutninga á landi og fólksflutninga í atvinnuskyni sem tekur tillit til þeirra þróunar sem orðið hefur á þessu sviði. (Haust) 
  10. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um dómstóla, nr. 15/1998
    Með frumvarpinu er lagt til að fjöldi dómara (43) haldist óbreyttur til ársloka 2014. (Haust) 
  11. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um happdrætti, nr. 38/2005, o.fl. 
    Um er að ræða endurskoðun á ýmsum lögum er varða happdrætti og spilakassa. Frumvarpið felur ekki í sér nýja eftirlitsstofnun. (Haust) 
  12. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um íslenskan ríkisborgararétt, nr. 100/1952, o.fl. (flutningur verkefna úr ráðuneytinu)
    Frumvarpið er niðurstaða stefnumótunarvinnu innanríkisráðuneytisins þar sem lagt er til að afgreiðsla nokkurra málaflokka verði færð úr ráðuneytinu til stofnana, t.d. til Útlendingastofnunar og sýslumanna. (Haust) 
  13. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir, nr. 46/2005
    Með frumvarpinu er innleidd tilskipun nr. 2009/44/EB frá 6. maí 2009 um breytingu á tilskipun nr. 2002/47/EB um samninga um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir. Tilskipunin skapaði samræmt lagaumhverfi fyrir notkun fjárhagslegra tryggingarráðstafana yfir landamæri og helsta breytingin er sú að ráðstafanir samkvæmt tilskipuninni ná einnig yfir skuldakröfur. Innleiðing. (Haust) 
  14. Frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, (kynáttunarvandi, viðbótarbókun við samning Evrópuráðsins um tölvubrot)
    Með frumvarpinu er innleidd viðbótarbókun við samning Evrópuráðsins um tölvubrot sem hefur að markmiðið að gera refsiverða ýmsa verknaði sem lýsa kynþátta- og útlendingahatri og sem framdir eru með því að hagnýta tölvukerfi. Einnig er með frumvarpinu leitast við að veita einstaklingum með kynáttunarvanda refsivernd til samræmis við aðra hópa sem eru taldir þurfa á sérstakri vernd að halda. (Haust) 
  15. Frumvarp til laga um gerð samninga um hlutdeild í afnotarétti orlofshúsnæðis 
    Með frumvarpinu eru innleidd ákvæði tilskipunar nr. 2008/122/EB um gerð samninga sem gerðir eru á skiptileigugrunni (e. timeshare). Tilskipunin fellir úr gildi eldri tilskipun um sama efni en sú tilskipun var innleidd í íslenskan rétt með lögum nr. 23/1997. Innleiðing. (Haust) 
  16. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um skaðsemisábyrgð, nr. 25/1991 
    Með frumvarpinu eru lagðar til nauðsynlegar breytingar vegna athugasemda ESA um ábyrgðarreglur laganna. Innleiðing. (Haust)
  17. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um lögbann og dómsmál til að vernda heildarhagsmuni neytenda, nr. 141/2001 (EES reglur)
    Í frumvarpinu eru lagt til að bætt verði við lista þeirra tilskipana sem lögin taka til. Innleiðing. (Haust) 
  18. Frumvarp til laga um breytingu á umferðarlögum
    Með frumvarpinu eru innleiddar ýmsar EES- gerðir. Innleiðing. (Haust) 
  19. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum, nr. 13/1984 (Evrópsk handtökuskipun) 
    Með frumvarpinu verða lagðar til breytingar vegna samnings Íslands við Evrópusambandið um framsal sakamanna þar sem gert er ráð fyrir að fyrirkomulag framsalsmála verði einfaldað. Innleiðing. (Vor) 
  20. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um siglingavernd, nr. 50/2004, og lögum um loftferðir, nr. 60/1998
    Með frumvarpinu er hækkaður refsirammi vegna innbrota í skip og haftasvæði flugverndar til að bregðast við fjölgun laumufarþega í höfnum og á flugvöllum. (Vor) 
  21. Frumvarp til laga um fullnustu refsinga
    Um er að ræða heildarendurskoðun á lögunum um fullnustu refsinga. (Vor) 
  22. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu, nr. 134/1995
    Með frumvarpinu eru gjaldtökuákvæði laganna styrkt. (Haust) 
  23. Frumvarp til laga um breytingu á vegalögum, nr. 80/2007 
    Með frumvarpinu er sett inn heimild til þess að sekta lögaðila ef ákvæði um gjaldtöku af umferð eru brotin. Innleiðing. (Haust)

Mennta- og menningarmálaráðherra 

  1. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um opinbera háskóla, nr. 85/2008 (hækkun skrásetningargjalda)
    Með frumvarpinu er lögð til hækkun skrásetningargjalds í opinberum háskólum. Frumvarpið er samið í samráði við helstu hagsmunaaðila. (Haust) 
  2. Frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna samkomulags ríkis og sveitarfélaga um tímabundna breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga vegna framlengingar samkomulags um eflingu tónlistarnáms og jöfnun á aðstöðumun nemenda til tónlistarnáms
    Frumvarpið felur í sér framlengingu á tímabundinni verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga vegna þátttöku ríkisins í kennslukostnaði í mið- og framhaldsnámi í söng og framhaldsnámi í hljóðfæraleik í samræmi við framlengt samkomulag ríkis og sveitarfélaga um eflingu tónlistarnáms og jöfnun á aðstöðumun nemenda til tónlistarnáms. Frumvarpið er samið í samráði við helstu hagsmunaaðila. (Haust) 
  3. Frumvarp til laga um breytingu á höfundalögum, nr. 73/1972 (lenging verndartíma hljóðrita)
    Frumvarpið felur í sér innleiðingu á tilskipun 2011/77/ESB um lengdan verndartíma hljóðrita. Frumvarpið er samið í samráði við helstu hagsmunaaðila. (Haust) 
  4. Frumvarp til laga um opinber skjalasöfn 
    Markmið frumvarpsins er að tryggja vörslu og örugga meðferð opinberra skjala með réttindi borgaranna, hag stjórnsýslunnar og sögu íslensku þjóðarinnar að leiðarljósi. Meginmarkmið þeirrar endurskoðunar sem felst í frumvarpinu miðað við gildandi lög er að einfalda stjórnsýslu á málefnasviði Þjóðskjalasafnsins, skýra hana frekar með hliðsjón af fjölþættu hlutverki safnsins og stuðla að hagkvæmni og skilvirkni í rekstri þess. Frumvarpið er samið í samráði við helstu hagsmunaaðila. (Haust) 
  5. Frumvarp til laga um breytingu á höfundalögum, nr. 73/1972 (endurskoðun höfundalaga)
    Frumvarpið er áfangi í heildarendurskoðun höfundalaga sem hófst árið 2009. Að þessu sinni eru lagðar til breytingar á 1. kafla höfundalaga. (Haust) 
  6. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um grunnskóla, nr. 91/2008 (einkareknir grunnskólar, kæruleiðir og valdmörk stjórnvalda)
    Frumvarpinu er ætla að skýra réttarstöðu sjálfstætt rekinna grunnskóla, kæruleiðir og valdmörk á milli sveitarfélaga, mennta- og menningarmálaráðuneytis og innanríkisráðuneytis. Frumvarpið er samið í samráði við helstu hagsmunaaðila. (Vor) 
  7. Frumvarp til laga um tónlistarskóla
    Frumvarpinu er ætlað að koma í stað laga um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla, nr. 75/1985. Í frumvarpinu felst tillaga að fyrstu heildarlöggjöfinni um starfsemi tónlistarskóla, jafnframt því sem frumvarpinu er ætlað að lögfesta það samkomulag sem gert var á milli ríkis og sveitarfélaga um eflingu tónlistarnáms og afnám hindrana fyrir skólasókn utan lögheimilissveitarfélaga. Frumvarpið er m.a. byggt á tillögum nefndar um endurskoðun á lögum nr. 75/1985. (Vor) 
  8. Frumvarp til laga um breytingu á framhaldsskólalögum (nemaleyfisnefndir, gjaldtaka fyrir rafræn námsgögn o.fl.)
    Tilgangur frumvarpsins er að renna stoðum undir hlutverk og störf nemaleyfisnefnda, heimila gjaldtöku fyrir rafræn námsgögn o.fl. Frumvarpið er samið í samráði við helstu hagsmunaaðila. (Vor) 
  9. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda, nr. 87/2008 (endurskoðun laga)
    Frumvarpið felur í sér endurskoðun á lögum um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda, nr. 87/2008. Frumvarpið er samið í samráði við helstu hagsmunaaðila. (Vor) 

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra

  1. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru, nr. 22/1994 (áburðareftirlit, fóðureftirlit, þvingunarúrræði og viðurlög) 
    Í frumvarpinu er lagt til að við lögin bætist nýr kafli um áburð. Þá er gert ráð fyrir að Matvælastofnun sé heimilt að framselja ákveðin verkefni sem nú eru á verksviði stofnunarinnar til heilbrigðisnefnda sveitarfélaga. Jafnframt að Matvælastofnun fái heimild til að leggja stjórnvaldssektir á einstaklinga eða lögaðila sem brjóta gegn tilteknum bannákvæðum laganna eða ákvörðunum teknum samkvæmt þeim. Endurflutt. (Haust) 
  2. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um matvæli, nr. 93/1995 (eftirlit, verkaskipting, gjaldskrárheimild) 
    Lagt er til að lögfest verði skýr heimild eftirlitsaðila til að innheimta gjald vegna kostnaðar við eftirlitið. Kostnaður vegna eftirlitsins falli á innflytjendur og framleiðendur hérlendis og eftir atvikum aðra dreifingaraðila þessara vara. Verkaskipting milli opinberra eftirlitsaðila er skýrð og kveðið er á um tilkynningarskyldu eftirlitsskyldra aðila um starfsemi sína til heilbrigðisnefnda sveitarfélaganna. Endurflutt. (Haust) 
  3. Frumvarp til laga um breytingu á tollalögum, nr. 88/2005
    Með frumvarpinu er lögð til breyting á 3. mgr. 12. gr. tollalaga. Með breytingu ákvæðisins er bætt inn nákvæmari viðmiðum við ákvörðun magntolls, í samanburði á verðum og ákveðið hámark sett á magntoll innan tollkvóta úr viðauka IVA og B í þeim tilgangi að veita ívilnandi toll þegar tollkvóta er úthlutað. Með breytingunni eru skýrðar betur þær forsendur sem liggja að baki ákvörðun magntolls. (Haust) 
  4. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum
    Með frumvarpinu er lögð til breyting á ákvæðum laga nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum. Frumvarpið gerir ráð fyrir að leggja niður óþarft fyrirkomulag verðmiðlunar- og verðtilfærslu í landbúnaði. (Haust) 
  5. Frumvarp til laga um vernd heita afurða sem vísa til uppruna, landsvæðis og hefðbundinnar sérstöðu
    Starfshópur sem skipaður var í nóvember 2012 vinnur nú að tillögum að heildarlöggjöf um heiti afurða sem vísa til uppruna, landsvæðis og hefðbundinnar sérstöðu að fyrirmynd löggjafar Evrópusambandsins og Noregs um gæðakerfi fyrir landbúnaðarafurðir. Tilgangur frumvarpsins er að veita afurðum vernd gegn óréttmætum viðskiptaháttum, stuðla að neytendavernd og auka virði afurða. (Haust) 
  6. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 25/1993, um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim
    Með frumvarpinu er lögð til breyting á orðalagi 5., 7., 8., 17. og 18. gr. laganna þar sem mælt er fyrir um í frumvarpinu að viðaukar 1A, 1B og 2 sem hafa að geyma skráningarskylda og tilkynningarskylda sjúkdóma verði felldir niður. Þá kemur skýr heimild fyrir ráðherra að mæla fyrir um að listi yfir skráningarskylda og tilkynningarskylda sjúkdóma skuli birtur með reglugerð. Við vinnslu frumvarpsins er höfð hliðsjón af formi birtingar sjúkdómalista í Noregi og hjá Evrópusambandinu. (Haust) 
  7. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 160/2011, um svæðisbundna flutningsjöfnun (gildistími)
    Lög nr. 160/2011, um svæðisbundna flutningsjöfnun, falla úr gildi þann 31. desember 2013. Leggja þarf fram frumvarp sem framlengir gildistíma laganna. Gildistími laganna var framlengdur um ár eða til 31. desember 2013 , með lögum nr. 128/2012. Gildistími laganna miðast við byggðakort ESA, sem nú hefur verið framlengt til 1. júlí 2014 og ekki eru fyrirhugaðar verulegar breytingar á kortinu fyrir næsta tímabil. (Haust) 
  8. Frumvarp til laga um breytingu á jarðalögum, nr. 81/2004
    Nefnd til að leggja til breytingar á jarðalögum, nr. 81/2004, og eftir atvikum ábúðarlögum, nr. 80/2004, sem skipuð var í desember 2012 skilaði tillögum sínum í mars 2013 með drögum að frumvarpi til breytinga á jarðalögum. Í tillögum nefndarinnar er m.a. fjallað um skipulagsáætlanir og hvernig þær snúi að landbúnaðarhagsmunum og vernd ræktarlands og hvernig sameign jarða snúi að ákvörðunartöku um nýtingu og ráðstöfun jarða. (Haust/vor) 
  9. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 96/1997, um slátrun og sláturafurðir (heimaslátrun)
    Í 5. gr. laga nr. 96/1997, um slátrun og sláturafurðir er kveðið á um að sláturdýrum, sem slátra eigi til að flytja afurðirnar á erlendan markað eða til dreifingar og neyslu innan lands, skuli slátra í löggiltum sláturhúsum. Dómstólar hafa túlkað þetta ákvæði þannig að slátrun til eigin neyslu megi fara fram utan löggiltra sláturhúsa. Ráðuneytið hefur úrskurðað á sama veg. Nauðsynlegt er að breyta lögum nr. 96/1997 þannig að sett séu ákveðin skilyrði fyrir heimaslátrun einstaklinga utan lögbýla s.s. að slátrun eigi sér einungis stað á eigin fé en ekki fé annarra og að skilgreina þurfi hversu margir dilkar skuli rúmast innan hugtaksins „eigin neysla“. (Vor) 
  10. Frumvarp til laga um stjórn fiskveiða
    Fiskveiðistjórnunarkerfið verður yfirfarið, en grundvöllur fiskveiðistjórnunar verður áfram aflamarkskerfi. Miðað er við að efla sátt um framtíðarskipulag greinarinnar. Áfram verður unnið með tillögu sáttanefndar sem starfaði á liðnu kjörtímabili. Stuðst verður áfram við þau félagslegu, byggðalegu og atvinnulegu úrræði sem gildandi fiskveiðistjórnarlöggjöf kveður á um. (Vor) 
  11. Frumvarp til laga um veiðigjöld 
    Endurskoðun laga um veiðigjöld. Í þeirri vinnu er miðað við að lagt verði á almennt gjald sem endurspegli kostnað ríkisins af sjávarútveginum en sérstakt gjald taki sem mest mið af afkomu sjávarútvegsins og einstakra fyrirtækja. (Vor) 
  12. Frumvarp til laga um umgengni um nytjastofna sjávar
    Frumvarp þessa efnis var lagt fyrir Alþingi sl. vor. Gekk það fyrst og fremst út á að bæta heimildir Fiskistofu til inngripa, upptöku, stjórnvaldssekta ofl. Gert er ráð fyrir að frumvarpið verði endurflutt í haust með nokkrum breytingum. (Haust) 
  13. Frumvarp til laga um uppboðsmarkaði sjávarafla
    Heildarendurskoðun laga nr. 29/2005, um uppboðsmarkaði fyrir sjávaraflastarfsemi. Í endurskoðuninni verða tekin fyrir atriði eins og almenn skilyrði og reglur um eignarhald fiskmarkaða. (Vor) 
  14. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða
    Lagt verður til að úthafsrækja verði hlutdeildarsett, en veiðar á stofninum hafa verið frjálsar síðustu þrjú ár. Við hlutdeildarsetninguna verður litið bæði til fyrri aflahlutdeilda í stofninum og aflareynslu skipa á síðustu þremur árum. (Haust) 
  15. Frumvarp til laga um fiskeldi
    Áformuð er heildarendurskoðun á lögum nr. 71/2008, um fiskeldi. Einnig er áformað í framhaldi af því að endurskoða stjórnvaldsreglur um fiskeldi. Frumvarpið verður unnið í samvinnu við Landssamband fiskeldisstöðva og önnur ráðuneyti sem koma að málefnum fiskeldis. (Haust) 
  16. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði
    Áfram verður unnið að frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði, varðandi deildir í veiðifélögum. Frumvarp um það efni var lagt fram á 141. löggjafarþingi en varð ekki útrætt á þinginu. Áformað er að frumvarpið verði lagt fyrir Alþingi á ný með tilteknum breytingum. (Haust) 
  17. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 90/2011, um skeldýrarækt
    Um er að ræða breytingu á lögum nr. 90/2011, um skeldýrarækt, með ákvæðum um veiðar á skeldýrum, svæðaskiptingu og ræktun á botnsvæðum. (Haust) 
  18. Tillaga til þingsályktunar samkvæmt lögum nr. 106/1999, um Byggðastofnun
    Samkvæmt 7. gr. laga nr. 106/1999, um Byggðastofnun, skal ráðherra leggja fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir fjögurra ára tímabil. Gildandi byggðaáætlun nær yfir tímabilið 2010-2013 og því þarf að leggja fram á haustþingi byggðaáætlun fyrir tímabilið 2014-2017. Byggðaáætlun er ætlað að gera grein fyrir ástandi og horfum í þróun byggðar í landinu og að lýsa markmiðum og stefnu ríkisstjórnarinnar í byggðamálum, áætlunum um aðgerðir og tengsl byggðastefnu við almenna stefnu í efnahags- og atvinnumálum og áætlunum á sviði opinberrar þjónustu í landinu. (Haust)

Umhverfis- og auðlindaráðherra 

  1. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998
    Með frumvarpinu er lagt til að gerðar verði breytingar á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir er varða innleiðingu á þremur ESB-gerðum - reglugerð (ESB) nr. 66/2010 um umhverfismerki Evrópusambandsins, tilskipun 2008/50/EB um loftgæði og hreinna loft í Evrópu og tilskipun 2001/81/EB um landsbundin efri mörk losunar fyrir tiltekin loftmengunarefni. Með frumvarpinu er ætlunin að styrkja framkvæmd norræna umhverfismerkisins, sett verða ákvæði um færanlega starfsemi og endurskoðun starfsleyfa. Fyrir liggur að ESA mun undirbúa málshöfðun gegn Íslandi vegna vanefnda á innleiðingu ef málið verður ekki afgreitt á haustþingi. Frumvarpið var samið í samstarfi við hagsmunaaðila. Frumvarpið var lagt fram á 140. og 141. löggjafarþingi og er að mestu efnislega óbreytt frá síðustu framlagningu. (Haust) 
  2. Frumvarp til laga um byggingarvörur
    Frumvarpið er til innleiðingar á reglugerð ESB nr. 305/2011 um samræmd skilyrði fyrir markaðssetningu byggingarvara og niðurfellingu á tilskipun ráðsins 89/105/EBE. Reglugerðin tók gildi í apríl 2011 innan Evrópusambandsins en meginhlutanum var þó frestað til 1. júlí 2013. Reglugerðin gerir ráð fyrir sameiginlegu kerfi um skilyrði fyrir markaðssetningu byggingarvara innan Evrópu og er ætlað að tryggja að áreiðanlegar upplýsingar liggi fyrir um eiginleika byggingarvara með tilliti til þeirra grunnkrafna sem mannvirkjum er ætlað að uppfylla, t.d. um öryggi og hollustu. Frumvarpið var unnið í samvinnu við Mannvirkjastofnun og í samráði við hagsmunaaðila og var lagt fram á 141. löggjafarþingi. Frumvarpið er efnislega óbreytt frá síðustu framlagningu. (Haust) 
  3. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000
    Með frumvarpinu verða lagðar til breytingar á lögunum og viðaukum laganna í samræmi við ábendingar frá Eftirlitsstofnun EFTA. Frumvarpið var unnið af starfshópi með fulltrúum frá ráðuneytinu og Skipulagsstofnun. Frumvarpið var lagt fram á 140. og 141. löggjafarþingi. (Haust) 
  4. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðhöndlun úrgangs, nr. 55/2003
    Frumvarpið er til innleiðingar á rammatilskipun um úrgang, 2008/98/EB. Frumvarpið varðar einnig breytingar vegna raf- og raftækjaúrgangs og endurvinnslu drykkjarvöruumbúða (Endurvinnslan hf.). Fyrir liggur að ESA mun undirbúa málshöfðun gegn Íslandi vegna vanefnda á innleiðingu ef málið verður ekki afgreitt á haustþingi. Frumvarpið var samið í samstarfi við Umhverfisstofnun, Úrvinnslusjóð og hagsmunaaðila. Frumvarpið var lagt fram á 141. löggjafarþingi. (Haust) 
  5. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um erfðabreyttar lífverur, nr. 18/1996
    Með frumvarpinu er áformað að innleiða ákvæði bókunar frá árinu 2000 við Samninginn um líffræðilega fjölbreytni, Cartagena Protocol on Biosafety. (Haust) 
  6. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um varnir gegn mengun hafs og stranda, nr. 33/2004
    Frumvarpið er til innleiðingar á tilskipun 2000/59/EB um móttökuaðstöðu í höfnum fyrir farmleifar og úrgang frá skipum. Fyrir liggur að ESA mun undirbúa málshöfðun gegn Íslandi vegna vanefnda á innleiðingu ef málið verður ekki afgreitt á haustþingi. Frumvarpið verður samið í samstarfi við önnur stjórnvöld og hagsmunaðila. (Haust) 
  7. Frumvarp til laga um breytingu á skipulagslögum, nr. 123/2010 
    Frumvarpið er vegna breytinga á lögunum með hliðsjón af reynslu á framkvæmd laganna og vegna ákvæða um bótaábyrgð vegna skipulags. Frumvarpið var unnið á grundvelli lögfæðilegrar álitsgerðar sem ráðuneytið lét vinna varðandi bótaábyrgð vegna skipulags. Frumvarpið var unnið í samstarfi við Skipulagsstofnun og Samband íslenskra sveitarfélaga varðandi bótaákvæði frumvarpsins. (Haust) 
  8. Frumvarp til laga um niðurfellingu laga nr. 60/2013, um náttúruvernd
    Afturköllun gildistöku. Frumvarpið verður samið í samstarfi við önnur stjórnvöld og hagsmunaaðila. (Haust) 
  9. Frumvarp til laga um timbur og timburvörur
    Frumvarpið er til innleiðingar á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 995/2010 um skyldur aðila sem setja timbur og timburvörur á markað og fylgigerða (ESB) nr. 607/2012 og nr. 363/2012. Frumvarpið verður samið í samstarfi við Umhverfisstofnun og Skógrækt ríkisins. (Vor) 
  10. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998
    Frumvarpið felur í sér endurskoðun á eftirliti Umhverfisstofnunar og heilbrigðiseftirliti sveitarfélaga ásamt því að settar verðarheimildir til stjórnvaldssekta. Frumvarpið verður samið í samstarfi við hagsmunaaðila. (Vor) 
  11. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um landmælingar og grunnkortagerð, nr. 103/2006
    Frumvarpið varðar breytingar á lögum nr. 103/2006, um landmælingar og grunnkortagerð, hvað varðar afmörkun á nákvæmni landupplýsinga sem Landmælingar Íslands vinna með þannig að landupplýsingar sem Landmælingar Íslands varðveita verði ekki háð ákveðnum mælikvarða. Frumvarpið verður samið í samstarfi við Landmælingar Íslands og hagsmunaaðila. (Vor) 
  12. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 61/1992, um sinubrennur og meðferð elds á víðavangi
    Frumvarpið varðar breytingar á lögunum þannig að sinubrennur verði bannaðar. Frumvarpið verður samið í ráðuneytinu að höfðu samráði við Bændasamtök Íslands Félag slökkviliðsstjóra, Mannvirkjastofnun, Umhverfisstofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands og Samtök heilbrigðiseftirlitssvæða á Íslandi. (Vor) 
  13. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um varnir gegn mengun hafs og stranda, nr. 33/2004
    Frumvarpið er til innleiðingar tilskipunar 2005/35 eins og henni var breytt með tilskipun 2009/123/EB um mengun frá skipum og refsingar við mengunarbrotum. Breyta þarf lögunum til að tryggja að brot gegn þeim varði refsingu. Frumvarpið verður samið í samstarfi við innanríkisráðuneytið, önnur stjórnvöld og hagsmunaðila. (Vor) 
  14. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um Vatnajökulsþjóðgarð, nr. 60/2007
    Starfshópur sem unnið hefur að endurskoðun á stjórnarfyrirkomulagi þjóðgarðsins mun skila greinargerð til ráðherra á haustmánuðum 2013. Frumvarpið verður samið í samráði við önnur stjórnvöld og hagsmunaaðila. (Vor) 
  15. Frumvarp til laga um framkvæmdaáætlun um uppbyggingu ferðamannastaða í íslenskri náttúru
    Frumvarpið tengist málum er varða gjaldtöku inn á ferðamannastaði. Frumvarpið gerir ráð fyrir að ráðherra leggi fram framkvæmdaáætlun til nokkurra ára sem mun forgangsraða uppbyggingu ferðamannastaða. Frumvarpið verður samið í samstarfi við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og aðra hagsmunaaðila. (Vor) 
  16. Frumvarp til laga um sjálfbærniviðmið fyrir lífeldsneyti 
    Innleiðing tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2009/28/EB frá 23. apríl 2009 um að hvetja til notkunar orku frá endurnýjanlegum orkugjöfum og niðurfellingu tilskipana 2001/77/EB og 2003/30/EB. Frumvarpið verður samið í samráði við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og hagsmunaaðila. (Vor) 
  17. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um loftslagsmál, nr. 70/2012
    Varðar reglur um niðurdælingu koldíoxíðs í jarðlög. Frumvarpið er til innleiðingar á tilskipun 2009/31/EB um geymslu koldíoxíð í jörðu og um breytingu á tilskipun ráðsins 85/337/EBE, tilskipunum Evrópuþingsins og ráðsins 2000/60/EB, 2001/80/EB, 2004/35/EB, 2006/12/EB, 2008/1/EB og reglugerð (EB) nr 1013/2006. Frumvarpið verður samið í samstarfi við Umhverfisstofnun og hagsmunaaðila. (Vor) 
  18. Tillaga til þingsályktunar um náttúruverndaráætlun og náttúruminjaskrá
    Gildandi náttúruverndaráætlun rennur út í lok árs 2013. Þar sem stefnt er að því að afturkalla gildistöku laga nr. 60/2013, um náttúruvernd, þarf að leggja fram nýja áætlun á grundvelli 65. gr. laga um náttúruvernd nr. 44/1999 til að taka við af þeirri sem gildir eingöngu út árið 2013. Tillagan verður unnin á grundvelli VIII. kafla laga nr. 44/1999 og í samstarfi við Umhverfisstofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands, náttúrustofur og aðra hagsmunaaðila. (Vor) 
  19. Tillaga til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða
    Verkefnisstjórn hefur hafið störf við 3. áfanga rammaáætlunar og starfar skv. lögum nr. 48/2011, um verndar- og orkunýtingaráætlun. Verkefnisstjórn hefur til skoðunar þá orkukosti sem fjallað er um í 12. kafla álits meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis frá því 142. löggjafarþingi. Eru þessar áherslur í samræmi við lög um rammaáætlun og áherslur í fyrirliggjandi þingsályktunartillögu. Samkvæmt erindisbréfi verkefnisstjórnar ber henni að skila fyrstu niðurstöðum sínum til ráðherra 15. febrúar 2014. Tillaga til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða er unnin á grundvelli 3. gr. laga nr. 48/2011, um verndar- og orkunýtingaráætlun. (Vor)

Utanríkisráðherra

  1. Tillaga til þingsályktunar um fullgildingu fríverslunarsamnings milli ríkisstjórnar Íslands og ríkisstjórnar Alþýðulýðveldisins Kína
    Um er að ræða fríverslunarsamning milli Íslands og Kína sem undirritaður var 15. apríl 2013. (Haust) 
  2. Tillaga til þingsályktunar um fullgildingu fríverslunarsamnings milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Lýðveldisins Kólumbíu og landbúnaðarsamnings milli Íslands og Lýðveldisins Kólumbíu
    Fríverslunarsamningur milli EFTA-ríkjanna og Kólumbíu og landbúnaðarsamningur milli Íslands og Kólumbíu. Tillaga sama efnis hefur áður verið lögð fram á Alþingi en hlaut ekki afgreiðslu. (Haust) 
  3. Tillaga til þingsályktunar um fullgildingu fríverslunarsamnings milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Bosníu og Hersegóvínu og landbúnaðarsamnings milli Íslands og Bosníu og Hersegóvínu
    Fríverslunarsamningur milli EFTA-ríkjanna og Bosníu og Hersegóvínu og landbúnaðarsamningur milli Íslands og Bosníu og Hersegóvínu. (Haust) 
  4. Tillaga til þingsályktunar um fullgildingu fríverslunarsamnings milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Mið-Ameríkuríkja
    Fríverslunarsamningur milli EFTA-ríkjanna og Mið-Ameríkuríkjanna Panama og Kostaríka. (Haust) 
  5. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu samninga um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum vegna ársins 2013
    Um er að ræða samning milli Íslands, Evrópusambandsins, Noregs og Rússneska sambandsríkisins um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum. (Haust) 
  6. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu samnings milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu
    Árlegur samningur milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu. (Haust) 
  7. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 94/2013 um breytingu á XVII. viðauka (Hugverkaréttindi) við EES-samninginn
    Tilskipun 2011/77/ESB um verndartíma höfundarréttar og tiltekinna skyldra réttinda. (Haust) 
  8. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 129/2013 um breytingu á XVI. viðauka (Opinber innkaup) við EES-samninginn
    Tilskipun 2009/81/EB um útboð á sviði varnar- og öryggismála. (Haust) 
  9. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 45/2013 um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn
    Tilskipun 2009/126/EB um endurheimt bensíngufu við eldsneytistöku. (Haust) 
  10. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 75/2013 um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir, vottun) við EES-samninginn
    Reglugerðir (ESB) nr. 995/2010, 363/2012 og 607/2012 um markaðssetningu timburvara. (Haust) 
  11. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 113/2013 um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir, vottun) við EES-samninginn
    Reglugerð (ESB) nr. 305/2011 um byggingarvörur. (Haust) 
  12. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 86/2013 um breytingu á XII. viðauka (Frjálsir fjármagnsflutningar) við EES-samninginn
    Reglugerðir (EB) nr. 924/2009 og (ESB) nr. 260/2012 um greiðslur yfir landamæri. (Haust) 
  13. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 181/2012 um breytingu á XIX. viðauka (Neytendavernd) við EES-samninginn
    Tilskipun 2011/83/ESB um neytendavernd. (Haust) 
  14. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 114/2013 um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) við EES-samninginn
    Tilskipun 2012/7/ESB um strangari hömlur á magn kadmíums í leikföngum. (Haust)
  15. Tillaga til þingsályktunar um fullgildingu viðbótarbókunar við tölvubrotasamning Evrópuráðsins
    Markmið viðbótarbókunarinnar er að gera verknaði sem lýsa kynþátta- eða útlendingahatri refsiverða. Framlagning er háð því að innanríkisráðherra leggi fram frumvarp til breytinga á almennum hegningarlögum. (Haust)

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum