Hoppa yfir valmynd

Vörðum leiðina saman

Innviðaráðuneytið, í samvinnu við landshlutasamtök sveitarfélaga, stóð fyrir átta samráðsfundum (fjarfundum) í október 2022 undir yfirskriftinni Vörðum leiðina saman. Fundirnir voru liður í samhæfingu ráðuneytisins á sviði stefnumótunar í málaflokkum byggða-, húsnæðis-, samgöngu-, skipulags- og sveitarstjórnarmála. Öllum var velkomið að taka þátt í fjarfundunum.

Á fjarfundunum var kastljósinu beint að framtíðaráskorunum í málaflokkum ráðuneytisins. Meginviðfangsefni þeirra voru umræður um stefnumótun í samgöngum, sveitarstjórnarmálum og húsnæðis- og skipulagsmálum. Einnig verður nýsamþykkt byggðaáætlun kynnt. 

Samantekt funda

Alls skráði 361 einstaklingur sig á fundina, flestir úr sveitarstjórnum eða tengdir sveitarfélögum með einum eða öðrum hætti. Fulltrúi frá hverjum landshluta fór yfir framtíðarsýn þess landshluta á málefnasviði ráðuneytisins í upphafi hvers fundar. Í framhaldi af því fluttu verkefnisstjórar hverrar áætlunar stutta kynningu á hverri áætlun fyrir sig. Í umræðum í tveimur vinnustofum  (break-out rooms) á fundunum var gengið út frá hugtakinu búsetufrelsi, sem samnefnara allra stefna og áætlana ráðuneytisins. Alls voru 8-10 þátttakendur í hverjum hópi.  

  • Í fyrri vinnustofunni stýrðu fulltrúar ráðuneytisins umræðum um helstu áherslur þátttakenda til að ná markmiðum búsetufrelsis.
  • Í seinni umræðunni stýrðu fulltrúarnir umræðum um hvaða leiðir væru best til þess fallnar til að ná fram forgangsmarkmiðum í átt að búsetufrelsi með tilvísun til niðurstöðu fyrri vinnustofunnar.

Samgöngur 

Óhætt er að segja að þátttakendur hafi talið samgöngur mikilvægasta þátt búsetufrelsis. Mikil áhersla var lögð á eflingu almenningssamgangna um land allt. Ábendingar komu um að lækka verð og auka tíðni. Skoða ætti nánar möguleika á samnýtingu flutnings á fólki og farms. Á höfuðborgarsvæðinu var talið mikilvægt að auka fjárfestingu í samþættum samgönguinnviðum allra ferðamáta. Þar var hugtakið „samgöngufrelsi“ kynnt til sögunnar sem nauðsynlegur þáttur „búsetufrelsis“. Það fæli í sér að íbúum gæfist kostur á að velja sér þann ferðamáta sem það kýs.  

Fulltrúar Vestfjarða, Norður- og Austurlands  lögð mikla áherslu á að vegum væri haldið opnum allan ársins hring. Fulltrúar þessara landshluta lögðu áherslu á stuðning við flugsamgöngur og uppbyggingu flugvalla, m.a. til að tryggja aðgengi að heilbrigðisþjónustu. 

Vegainnviðir eru fólki um land allt hugleiknir. Þrýst var á um jarðgöng og að núverandi framkvæmdaáætlun samgönguáætlunar stæðu. Lögð var áhersla á aukið öryggi með áframhaldandi fækkun einbreiðra brúa og að líta yrði til öryggis allra ferðamáta. Þá var ákall um enn aukið átak í fækkun malarslitlaga á tengivegum. Bent var á að skoða þurfi þær kröfur sem gerðar eru til slíkra vega, með það fyrir augum að draga úr framkvæmdakostnaði. Þá væri hægt að vinna hraðar að verkefninu. 

Þátttakendur voru sammála um að tryggja þyrfti aukið fé til samgagna.

Húsnæði

Húsnæðismál brunnu á fundargestum í öllum landshlutum. Lögð var áhersla á húsnæðisuppbyggingu um land allt með aðkomu og fjárhagslegum stuðningi hins opinbera og að gott skipulag renndi stoðum undir uppbygginguna, m.a. með samgöngum, þ.m.t. almenningssamgöngum, þjónustu í nærumhverfi og öðrum nauðsynlegum innviðum. Fram kom að tryggja þyrfti lánsfjármagn á góðum kjörum um land allt og fleiri úrræði til að greiða fyrir uppbyggingu á landsbyggðinni, einfalda kröfur um nýbyggingar til að gera fleirum kleift að byggja og gera byggingar- og skipulagsferlið skilvirkara á sama tíma og gæði húsnæðis væru tryggð.

Varðandi leigumarkaðinn kom fram að hækka þyrfti stofnframlög til almennra íbúða, stuðla almennt að auknu framboði af fjölbreyttu leiguhúsnæði fyrir ólíka félagshópa, m.a. með aukinni aðkomu leigufélaga á borð við Bríeti, en einnig að auka þyrfti rétt og öryggi leigjanda almennt. Þátttakendur af Suðurlandi sögðu brýnt að koma í veg fyrir að erlent farandverkafólk byggi í gámum.

Aðgengi að grunnþjónustu

Fulltrúar allra landshluta lögðu áherslu á aðgengi að grunnþjónustu. Fulltrúar byggðarlaga fjarri höfuðborgarsvæðinu lögðu áherslu á bætt aðgengi að heilbrigðisþjónustu og uppbyggingu fjórðungssjúkrahúsa. Fram kom að hægt væri að nýta netið til að bæta aðgengi að heilbrigðisþjónustu í dreifðari byggðum. Lögð var áhersla á að aðgengi íbúa að lögbundinni þjónustu væri tryggð og fram kom aðgengi að leikskólum væri mikilvægt þó svo ekki væri um lögbundna þjónustu að ræða.

Fram kom ósk um uppbyggingu framhaldsskóla í fleiri byggðarlögum. Nokkrir tóku sérstaklega fram að bæta þyrfti aðgengi að fjarnámi á háskólastigi. Einn þátttakandi talaði um HÍ sem „risaeðlu“ í þessu sambandi. Stungið var upp á því að ívilnanir eins og afsláttur af námslánum væru nýttar til að laða sérfræðinga að búsetu í dreifðari byggðum.  Fulltrúi frá Vestfjörðum lagði áherslu á mikilvægi opinbers stuðnings við menningarstarfsemi.

Atvinnulíf - fjarskipti

Fram kom ánægja með stefnumið stjórnvalda um störf án staðsetningar og því bætt við að setja þyrfti byggðakvóta um staðbundin, opinber störf. Áhersla var lögð á mikilvægi nettengingar og fjarskipta ásamt aðstöðu til að hægt væri að sinna störfum án staðsetningar. Fulltrúar á Vesturlandi lögðu áherslu á að gsm-samband væri tryggt á landinu öllu. Stungið var upp á því að hvatar væru nýttir til að fá atvinnustarfsemi út á landsbyggðina. Einnig væri leitað leiða til að lækka skatta og gjöld á íbúa úti á landsbyggðinni. Síðast en ekki síst var talað um mikilvægi þess að tryggja nægilega orku og flutningsgetu til atvinnustarfsemi.

Skipulag og umhverfismál

Áhersla var lögð á faglegt skipulag, gæði umhverfis og nábýli við náttúru. Eins og fram hefur komið var mikil áhersla á gæði samgangna bæði gott aðgengi að almenningssamgöngum og tryggar samgöngur milli landshluta og innan landshluta. Skipulag er lykilþáttur þáttur í þróun samgangna með samgöngumiðuðu skipulagi. Sjónarmið komu fram um gæði hins byggða umhverfis og manneskjuleg viðmið í skipulagi og aðgengi fólks að þjónustu í nærumhverfi sínu. Einnig voru uppi sjónarmið um dreifða íbúðabyggð utan þéttbýlis.

Fram kom að úrgangsmál og flokkun þyrfti að vera samræmd. Þá kom fram að huga þyrfti að umhverfisáhrifum í allri ákvarðanatöku. Lagt var til að fjármagn í skipulagssjóð væri aukið. Fulltrúi Vestfjarða tók fram að tryggja þyrfti öryggi fólks gagnvart náttúruvá.

Almennt

Fram kom að efla þyrfti sveitarfélögin, tryggja þeim nægilegt fjármagn til að veita lögbundna þjónustu, bæta samskipti og tryggja samfellu í þjónustu ríkis og sveitarfélaga. Fram kom að byggðaáætlun ætti ekki að stilla upp landsbyggð og höfuðborgarsvæði sem ólíkum pólum og að höfuðborgarsvæðið væri hluti af áætluninni.

Hugtakið búsetufrelsi

Öll þau verkefni sem heyra undir innviðaráðuneytið eiga það sameiginlegt að leggja grunninn að búsetufrelsi. Í því felst að þjónusta hins opinbera þarf að vera aðgengileg öllum, hvar sem þeir búa á landinu. Hamingja fólks er ekki síst fólgin í því að það geti búið sér heimili þar sem það helst kýs. Búsetufrelsi ýtir undir fjölbreytileika byggðanna.

Dagskrá

Dagskrá samráðsfunda og skráningarhlekkir.

Dags. Staður  Skráning  Tími  
10. okt. Höfuðborgarsvæðið Lokið  15-17
11. okt. Suðurland Lokið  16-18
18. okt. Austurland Lokið  15-17
19. okt. Norðurland eystra Lokið  15-17
20. okt. Norðurland vestra Lokið  15-17
24. okt. Vestfirðir Lokið  15-17
26. okt. Vesturland Lokið  15-17
27. okt.
Suðurnes Lokið  15-17

Reglulegt samráð

Samráðsfundirnir verða ekki eina tækifæri íbúa til að hafa áhrif á stefnumótun ráðuneytisins. Stöðumat og valkostir (þ.e. grænbók) og drög að stefnu (þ.e. hvítbók) verða til að mynda birtar í samráðsgátt stjórnvalda. Þar gefst öllum tækifæri til að senda inn umsagnir og ábendingar. 

Einnig er hægt að senda inn ábendingar í tengslum við þessa fundi á netfang ráðuneytisins - [email protected] 

Sjá einnig:

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum