Stefnur Stjórnarráðs Íslands

Jafnréttisfulltrúar ráðuneyta - starfsreglur og hlutverk

1. gr.

Skipun jafnréttisfulltrúa og staða innan ráðuneytis

Sérhvert ráðuneyti skal skipa jafnréttisfulltrúa með sérþekkingu á jafnréttismálum sem fjallar um og hefur eftirlit með jafnréttisstarfi á málasviði ráðuneytisins og þeirra stofnana sem undir ráðuneytið heyra, sbr. 13. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008 (jafnréttislög).

Tilkynna skal skipun jafnréttisfulltrúa til félags- og tryggingamálaráðuneytisins og Jafnréttisstofu. Í starfi sínu sem jafnréttisfulltrúi skal viðkomandi starfsmaður heyra beint undir ráðuneytisstjóra eða skrifstofustjóra óháð því hver starfsstaða hans er að öðru leyti.

2. gr.

Meginverkefni jafnréttisfulltrúa

Meginverkefni jafnréttisfulltrúa ráðuneytis eru að:

 • fylgja eftir jafnréttisáætlun Stjórnarráðsins innan ráðuneytis síns,
 • hafa umsjón með gerð jafnréttisáætlunar ráðuneytis og endurskoðun hennar,
 • hafa umsjón og eftirlit með framkvæmd hennar,
 • vinna að kynjasamþættingu á málefnasviði ráðuneytisins, sbr. 17. gr. jafnréttislaga,
 • fræðast og afla sér þekkingar á sviði jafnréttismála,
 • sinna samstarfi og ráðgjöf á sviði jafnréttismála við stofnanir ráðuneytis,
 • skila árlegri greinargerð til Jafnréttisstofu,
 • hafa eftirlit með framkvæmd ráðuneytis á verkefnum sem því eru falin í þingsályktun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum (hér eftir nefnd framkvæmdaáætlun),
 • starfa með öðrum jafnréttisfulltrúum innan Stjórnarráðsins,
 • veita svör við fyrirspurnum sem varða jafnréttismál frá Alþingi o.fl.,
 • fylgja eftir gerð jafnréttismats á frumvörpum sem unnin eru í ráðuneytinu,
 • fylgjast með að tölfræðilegar upplýsingar ráðuneytis séu greindar eftir kynjum þegar við á,
 • taka á móti erindum starfsmanna sem varða framkvæmd jafnréttisáætlunar og vinna að úrlausn þeirra.

3. gr.

Jafnréttisáætlun Stjórnarráðsins

Jafnréttisfulltrúi skal reglulega kynna jafnréttisáætlun Stjórnarráðsins á vettvangi síns ráðuneytis og fylgja eftir aðgerðum sem þar eru boðaðar að því leyti sem þær snerta viðkomandi ráðuneyti.

4. gr.

Jafnréttisáætlun ráðuneytanna

Jafnréttisfulltrúi hefur umsjón með gerð jafnréttisáætlunar ráðuneytis í samráði við jafnréttisnefnd þar sem við á og ráðuneytisstjóra  sem ber ábyrgð á áætluninni. Ennfremur sér jafnréttisfulltrúi um að hún sé endurskoðuð á þriggja ára fresti, sbr. 2. mgr. 18. gr. jafnréttislaga.

5. gr.

Umsjónar- og eftirlitshlutverk jafnréttisfulltrúa

Meðal umsjónar- og eftirlitsverkefna jafnréttisfulltrúa innan hvers ráðuneytis er að:

 1. fylgjast með því að verkefnum ráðuneytis í jafnréttisáætlun sé fylgt eftir, í samráði við jafnréttisnefnd og ráðuneytisstjóra,
 2. skipuleggja fræðslu starfsfólks ráðuneytis um jafnréttismál, þ.m.t. efni jafnréttislaga, og jafnréttisáætlunar ráðuneytis.

6. gr.

Kynjasamþætting

Jafnréttisfulltrúi skal vinna að samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða í ráðuneyti sínu og á málefnasviði þess, sbr. 13. og 17. gr. jafnréttislaga.

7. gr.

Fræðsla og þekkingaröflun

Jafnréttisfulltrúi skal afla sér þekkingar á sviði jafnréttismála með því að sækja námskeið og ráðstefnur í samráði við yfirstjórn og samkvæmt stefnu hvers ráðuneytis um fræðslumál. Skal hann sækja jafnréttisþing, sbr. 10. gr. jafnréttislaga, og árlegan samráðsfund með Jafnréttisstofu, auk þess að taka þátt í sameiginlegri fræðsluáætlun jafnréttisfulltrúa Stjórnarráðsins.

8. gr.

Samstarf á sviði jafnréttismála við stofnanir ráðuneytis

Jafnréttisfulltrúi skal mynda tengsl við stofnanir ráðuneytanna, hafa samráð um jafnréttisstarf í þeim og veita þeim upplýsingar og ráðgjöf eftir því sem við á. Í því felst að jafnréttisfulltrúi kallar eftir jafnréttisáætlunum stofnana ráðuneyta og árlegum skýrslum um framvindu þeirra og fær upplýsingar frá tengilið/jafnréttisfulltrúa stofnunar varðandi árlega greinargerð, sbr. 9. gr.

9. gr.

Árleg greinargerð til Jafnréttisstofu

Samkvæmt 13. gr. jafnréttislaga skulu jafnréttisfulltrúar senda Jafnréttisstofu greinargerð árlega. Upplýsingarnar varða m.a.:

 1. tölfræðilegar upplýsingar um fjölda og hlutfall aðalmanna og formanna eftir kyni í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum viðkomandi ráðuneytis,
 2. tölfræðilegar upplýsingar um fjölda starfsmanna ráðuneytis, þ.m.t. í stjórnunarstöðum, og yfirmenn stofnana ráðuneytisins eftir kyni,
 3. verkefni fulltrúans fyrir nýliðið ár,
 4. skipan jafnréttisnefndar,
 5. jafnréttisáætlun ráðuneytis,
 6. tengiliði við stofnanir ráðuneytisins,
 7. jafnréttisáætlanir stofnana ráðuneytis,
 8. aðferðir sem yfirstjórn ráðuneytis og stofnanir þess hafa beitt við samþættingu jafnréttissjónarmiða,
 9. stöðu verkefna í framkvæmdaáætlun,
 10. jafnréttisumsagnir með frumvörpum.

Jafnréttisstofa leggur til eyðublöð til útfyllingar fyrir jafnréttisfulltrúa.

10. gr.

Þingsályktun um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum

Jafnréttisfulltrúi skal hafa eftirlit með framkvæmd verkefna í framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum innan ráðuneytis í samráði við ráðuneytisstjóra eða skrifstofustjóra.

Við endurskoðun/úttekt framkvæmdaáætlunarinnar skal jafnréttisfulltrúi taka saman upplýsingar um stöðu jafnréttismála og verkefna óski félags- og tryggingamálaráðuneytið þess eða Jafnréttisstofa.

11. gr.

Samstarf jafnréttisfulltrúa Stjórnarráðsins

Jafnréttisfulltrúar ráðuneytanna halda samráðsfund að jafnaði einu sinni í mánuði að undanskildum sumarmánuðunum. Fulltrúarnir skiptast á að halda fundina í húsakynnum hvers ráðuneytis og boðar sá hinn sami til fundarins, sér um fundarstjórn og tilnefnir ritara fundargerðar. Fundargerð skal vista í upplýsingabrunni jafnréttisfulltrúanna.

Sérfræðingur Stjórnarráðsins í jafnrétti kynja skal vera jafnréttisfulltrúum annarra ráðuneyta til ráðgjafar og sjá til þess að þeir samþykki árlega sameiginlega starfsáætlun og áætlun um fræðslu og þekkingaröflun.

12. gr.

Svör við fyrirspurnum um jafnréttismál

Jafnréttisfulltrúi skal annast, eða vera til ráðgjafar um, svör ráðuneytis við fyrirspurnum um jafnréttismál frá Alþingi o. fl.

13. gr.

Jafnréttismat á frumvörpum

Jafnréttisfulltrúi skal í samráði við ráðuneytisstjóra og eftir atvikum með sérfræðiaðstoð annast gerð jafnréttisumsagna með frumvörpum sem talin eru geta haft áhrif á jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

14. gr.

Tölfræðilegar upplýsingar

Jafnréttisfulltrúi skal við öflun og birtingu tölfræðilegra upplýsinga á vegum ráðuneytis fylgjast með að þær séu greindar eftir kynjum eftir því sem við á, sbr. 16. gr. jafnréttislaga.

15. gr.

Erindi frá starfsfólki

Starfsmaður sem telur á sér brotið vegna kynferðis á grundvelli jafnréttisáætlunar Stjórnarráðsins eða viðkomandi ráðuneytis getur leitað til jafnréttisfulltrúa til aðstoðar við úrlausn máls. Jafnréttisfulltrúi skal hafa aðgang að öllum upplýsingum sem hann telur máli skipta vegna úrlausnar slíkra erinda og er hann bundinn trúnaði vegna slíkra upplýsinga.

16. gr.

Samstarf yfirstjórnar og jafnréttisfulltrúa

Stuðla skal að góðu og árangursríku samstarfi yfirstjórnar og jafnréttisfulltrúa og skal hún tryggja að jafnréttisfulltrúi hafi svigrúm til að sinna starfi sínu að jafnréttismálum gegni hann því samhliða öðrum störfum. Að minnsta kosti einu sinni á ári skal haldinn fundur jafnréttisfulltrúa og yfirstjórnar um stöðu jafnréttismála. Jafnréttisfulltrúar skulu í janúar ár hvert óska eftir upplýsingum frá yfirstjórn um hvort til staðar sé kynbundinn launamunur í viðkomandi ráðuneyti og ef svo er, hvernig yfirstjórn hyggst jafna hlut kynjanna.

17. gr.

Kjör jafnréttisfulltrúa

Starf jafnréttisfulltrúa skal metið í heildarmati á starfi og launakjörum hans.

18. gr.

Endurskoðun

Starfsreglur þessar skal endurskoða eftir gildistöku hverrar framkvæmdaáætlunar.  


Samþykkt á fundi ráðuneytisstjóra 9. nóvember 2010.

Starfsreglur þessar byggjast á:

Til baka