Hoppa yfir valmynd
21. september 2012

Kjarasamningar – loforð og efndir ríkisstjórnarinnar

yfirlit
yfirlit

Með  yfirlýsingu stjórnvalda í tengslum við gerð kjarasamninga var margvíslegum og mikilvægum umbótaverkefnum hrundið af stað. Flest þessara verkefna hafa verið unnin í góðu samstarfi við aðila vinnumarkaðarins og fleiri hagsmunaaðila.
Að undanförnu hafa forystumenn samtaka atvinnurekenda og launamanna sem og þingmenn stjórnarandstöðunnar sakað ríkisstjórnina um að svíkja gefin loforð í tengslum við gildandi kjarasamninga. Er þar fyrst og fremst vísað til yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga þann 5.  maí 2011.

Fjárfestingar

Um sókn í atvinnumálum og fjárfestingar segir í yfirlýsingunni: „Það er markmið stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins að þetta hlutfall fari stighækkandi og verði ekki lægra en 20% í lok samningstímans en það jafngildir því að fjárfesting verði ekki lægri en 350 ma.kr. á ári.“

Ljóst er að stjórnvöld gátu ein og sér aldrei ábyrgst 350 milljarða króna  fjárfestingar og þess vegna hlaut markmiðssetning um fjárfestingu að vera sameiginleg stjórnvöldum og aðilum kjarasamningsins. Staðreyndin er að mörg stór verkefni  hafa tafist af óviðráðanlegum ástæðum og ekki við ríkisstjórnina að sakast.  Nefna má deilur um orkuverð sem tafið hafa álversframkvæmdir í Helguvík. Erfitt efnahagsástand í heiminum torveldar fyrirtækjum að fá fjármagn til fjárfestinga hér á landi. Þetta hefur m.a. tafið uppbyggingu á uppbyggingu á Bakka  við Húsavík en þegar yfirlýsingin var gerð vorið 2011 leit út fyrir að framkvæmdir myndu hefjast innan tíðar. Þá má nefna að bygging nýs sjúkrahúss í Reykjavík hefur tafist um a.m.k. tólf mánuði vegna skipulagsvinnu Reykjavíkurborgar.

Töfum af ýmsum toga hefur verið mætt með nýjum áformum sem ekki er að finna í umræddri yfirlýsingu. Þau koma m.a. fram  í fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar sem kynnt var snemma sumars. Þar má nefna aukin framlög til samgöngumála, sóknaráætlanir landshlutanna og framlög til skapandi greina, tækni- og þróunarsjóða. Nefna má stefnumörkun um erlendar fjárfestingar sem lögð hefur verið fram sem þingsályktunartillaga. Jafnframt hefur fé verið veitt til að  kynna grænar fjárfestingar sem Íslandsstofa hefur umsjón með.

Mennta- og vinnumarkaðsmál

Allt er lýtur að menntamálum  og vinnumarkaðsúrræðum hefur gengið eftir í góðu samstarfi við aðila vinnumarkaðarins. Aðfinnslur Samtaka atvinnulífsins þar að lútandi eru því ómaklegar.

Velferðarmál

Fullyrða má að staðið hafi verið við allt er lýtur að velferðarmálum í nefndri yfirlýsingu. Frumvarp um heildarendurskoðun á almannatryggingum mun raunar ganga lengra en þar er sagt með því að stórlega verður dregið úr tekjutengingum. Þá hefur verið staðið við loforð um starfsendurhæfingu.

Skattamál

Atvinnutryggingagjald verður  lækkað eins og lofað var um 0,3 prósentustig árið 2013.  Í yfirlýsingunni engu lofað um almenna tryggingargjaldið. Ljóst var að kjarasamningarnir voru mjög dýrir er varðar útgjöld til almannatrygginga. 75% af útgjöldum lífeyristrygginga voru fjármögnuð af almenna tryggingagjaldinu í fjárlögum 2003 en tíu árum síðar, árið 2013, eru einungis 57% af útgjöldunum fjármögnuð af tryggingagjaldinu og hefur ríkissjóður þurft að axla mismuninn á þessu tímabili.

Gott samráð hefur verið um skattlagningu  fyrirtækja. Komið hefur verið til móts við næstum öll sjónarmið Samtaka atvinnulífsins. Ákveðnir þættir voru lögfestir í fyrra og frumvarp um enn aðra þætti, s.s. um þunna eiginfjármögnun og  afdráttarskatt á vaxtagreiðslu, verður flutt á næstu vikum.

Í meðfylgjandi töflu er kerfisbundið farið yfir efndir allra efnisþátta þeirrar yfirlýsingar sem ríkisstjórnin gaf út í tengslum við gildandi kjarasamninga. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum